06.12.1937
Efri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Því miður heyrði ég ekki alla ræðu hv. 1. þm. Reykv., þar sem ég var kallaður frá í landssimann, og hefi ég því litlu að svara. Það er þó eitt atriði, sem ég vil benda á, og ég er jafnvel að hugsa um að koma með brtt. um, þó ég sé ekki búinn að forma hana enn. Það er það, að ríkissjóður annarsvegar og hinsvegar mjög margar stofnanir, sem ríkið rekur hér í Rvík, svo sem útvarp, viðtækjaverzlun, áfengisverzl. og margar fleiri, veita fjölda fólks hér atvinnu, og þetta fólk greiðir verulegan hluta af útsvörum Rvíkurbæjar. Ég er ekki búinn að telja það saman nákvæmlega, hve miklu þessi útsvör nema, en það mun láta nærri, að þau séu 1/4 af öllum útsvörum bæjarins. Nú hefi ég hugsað mér að koma með brtt. við 10. gr., þar sem lagt sé til, að ennfremur greiðist heimingur af þessum útsvörum til jöfnunarsjóðs. Þegar sú breyt. er komin í l., er fyrst hægt að fara að tala um, að önnur bæjar- og sveitarfélög standi jafnt að vígi og Rvík, sem þó hefði það enn fram yfir aðra staði, að hér eru meiri efnamenn en annarsstaðar á landinu og meiri tekjumenn í prívatrekstri. Enn má benda á það, að helmingur allra útsvara hér er umsetningarútsvar, sem hvílir á allri verzlun, en hún er að töluverðu leyti við utanbæjarmenn. En sem sagt, aðstaðan yrði jafnari, ef þetta yrði gert, og ætla ég að koma með brtt. þess efnis.