08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Jakob Möller:

Það er að vísu óþarfi að þessu sinni að flytja langt mál um þetta frv. Ég vildi þó aðeins beina því til þeirrar n., sem væntanlega fær málið til afhugunar, hvort ekki væru aðrar leiðir færar til þess að bæta úr þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi. Því að sannleikurinn er sá, að í raun og veru er ekki gerð tilraun til þess í frv. að sjá fyrir neinni nýrri tekjulind til að bæta úr þörfinni, þó að svo sé látið í veðri vaka, að það sé tilgangur þess.

Í I. kafla frv. eru ný ákvæði um fasteignaskatt, og má segja, að í því felist viðleitni til tekjuöflunar. En það liggur í augum uppi, að þar er ekki um neinn nýjan tekjustofn að ræða. Útsvörin hafa verið lögð á efni manna, og breytir litlu, þó að nú eigi að leggja sérstakan skatt á það, sem menn kunna að eiga í fasteignum. Það er óhjákvæmilegt, að ekki er hægt að leggja á sama útsvar og áður, þegar búið er að innheimta slíkan fasteignaskatt, og þegar búið er að leggja á útsvar, svo að ekkert meira er að hafa, þá breytist fátt til batnaðar, þó að leyft sé að breyta einhverju af útsvarinu í fasteignaskatt.

En slíkur skattur á þá, sem eiga fasteign aðeins að nafninu til, gerir lítið annað en svipta þá umráðum yfir eign, sem þeir eru að reyna að halda og klóra í bakkann í lengstu lög. Það er mjög hart aðgöngu fyrir þá menn, ef skatturinn er settur til þess að ríða þar baggamuninn. Hitt verður að játa, að þarna eru skapaðir möguleikar til þess að ná gjöldum hjá mönnum, sem ekkert eiga, með því að láta skattinn ganga fyrir öllum lögveðskröfum öðrum, sem á eigninni hvíla. En það er mjög hæpið, hvað gott stafar af því, og varhugavert fyrir allt það rót, sem kemur, ef fjöldi manna missir umráðarétt sinn yfir fasteignunum, sífelld eigendaskipti verða og margar þeirra fara undir hamarinn. Maður veit það, þegar uppboð fara að tíðkast, að þá fer sumt ekki nema fyrir lítinn hluta verðs, og það getur leitt til óeðlilegrar verðlækkunar á eignum yfirleitt og til þess, að allt fari á ringulreið.

Þetta er nú eina tilraunin í frv. til að skapa nýjar tekjur. Og hún er ekki fullnægjandi. Það er viðurkennt af hv. fyrra flm. frv. (BSt). því að það sýnir frv., sem ég sé, að nú hefir verið borið fram og mun hafa fylgi hans í hv. fjhn. Ed., um framlenging á f. frá 1933 um bæjargjöld í Vestmannaeyjum. Þar er gert ráð fyrir, að Vestmannaeyjar haldi þeim tekjustofnum, sem þær hafa haft, þrátt fyrir það, að bæjar- og sveitarfélög fá nú, ef frv. verður að lögum, rétt til að leggja á nýjan fasteignaskatt.

Um II. kafla laganna — jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga — er í sjálfu sér gott eitt að segja, það sem hann nær. Og það er veruleg bót að hækka framlag ríkissjóðs úr 250 þús. í 700 þús. kr. á ári. En í raun og veru hrekkur það skammt. Það nær ekki heldur tilgangi sínum, ef hann á að vera að létta undir með sveitar- og bæjarfélögum almennt, þegar t. d. Rvík virðist tæplega geta orðið þátttakandi í þessari jöfnun. Og augljóst er, að ýmis önnur bæjarfélög fá svo litið, að það gagnar ekki. — Þessu vildi ég beina til n., hvort ekki séu aðrar leiðir til að fullnægja þörfinni, sem þetta frv. átti að bæta úr.