20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég tek það fram eins og hv. 9. landsk. (MG), að ég ætla ekki að blanda mér inn í þær deilur, sem standa yfir í þessu máli, en þar sem liggur við, að hæstv. fjmrh. hafi farið háðulegum orðum um frv., sem ég hefi flutt ásamt öðrum hv. þdm., þá get ég ekki stillt mig um að svara hæstv. ráðh. Það, sem hæstv. ráðh. ber Sjálfstfl. á brýn, og nú sérstaklega okkur, sem höfum flutt frv. um tekjur handa bæjar- og sveitarfélögum, er, hvað við séum ógætnir í fjármálum. Ég vil nú beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann telji, að stjórn sjálfstæðismanna bæði á fjármálum ríkisins, meðan þeir höfðu þar völd, og eins í þeim bæjar- og sveitarfélögum, þar sem þeir hafa meiri hl., geri þessa ályktun hans réttmæta, og hvort honum virðist, að sjálfstæðismenn standi sig þar verr heldur en sósíalistar í þeim bæjarfélögum, þar sem þeir hafa ráðin. Ég veit ekki betur en að þau tvö bæjarfélög á landinu, þar sem sósialistar ráða lögum og lofum, séu verst stæðu bæjarfélögin á öllu landinu. Ég skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. fer að líta svo á, að sjálfstæðismenn á Alþingi hljóti að hafa öfuga stefnu í fjármálum við það, sem annarsstaðar er, þar sem þeir leggja hönd á plóginn, nefnilega í bæjar- og sveitarfélögunum. Ástæðan fyrir því, að víð komum með þetta frv. um tekjuöflun fyrir bæjar- og sveitarfélög, er eingöngu sú, að hið opinbera er þegar búið að þrautpína borgarana svo með beinum sköttum, að engin leið er lengur fyrir bæjar- og sveitarfélögin að fá þær tekjur, sem þau þarfnast ríkissjóður hefir gengið lengra og lengra í þessa átt og stöðugt vegið í hinn sama knérunn, svo að nú eru ekki lengur að verða til neinir efnamenn til að standa undir útgjöldum bæjar- og sveitarfélaganna. En svo, ef minnzt er á að spara þessi útgjöld eða útgjöld ríkissjóðsins, þá er alltaf sama viðkvæðið: Já, hvar á að spara? Það er bezt, að sjálfstæðismenn segi til um það, hvar á að spara. Sparnaðartill. eiga að koma frá sjálfstæðismönnum, en ekki til þess að farið verði eftir þeim; nei, heldur til þess að hægt sé að núa því þeim um nasir á eftir, að þarna hafi þeir viljað spara, svo að hægt sé að skrifa um það í blöðum og hrópa það á fundum, að sjálfstæðismenn séu á móti þessum eða öðrum fjárveitingum. Þetta eru nú vinnubrögðin gagnvart Sjálfstfl. Það er því ekki að furða, þótt Sjálfstfl. sé orðinn tortrygginn og vilji ekki bera fram sparnaðartill., nema hann eigi víst, að þær nái fram að ganga. Væri um slíka vissu að ræða, mundi Sjálfstfl. benda á leiðir til sparnaðar; þá mundi flokkurinn sýna fram á, hvernig hægt væri að láta tekjur og gjöld ríkissjóðs standast, sem er stefna Sjálfstfl. En þegar eingöngu er spurt um sparnaðartill. Sjálfstfl. til þess að klína ósóma á flokkinn, en ekki til þess að fara eftir þeim, þá er ekki að undra, þótt flokkurinn verði tortrygginn og vilji ekki láta uppi sínar sparnaðartill.

Það hefir mátt undanfarið skilja það á form. Framsfl. í blaði flokksins, að nú væri kominn tími til að spara og að hann viðurkenndi stefnu Sjálfstfl. í þá átt. Þetta hefir verið kallað á máli annars stjórnarflokksins, Alþfl., „bros til hægri“, og sýnir þetta glöggt, að jafnaðarmenn álíta, að stefna Sjálfstfl. sé gætileg fjármálastjórn. En þetta hægribros mun ekki hafa verið í alvöru; það lítur út fyrir að vera byggt á óheilindum, í þeim tilgangi að fá sósana til að vera taumliðugri. Ég skal ekki fullyrða þetta, en svona litur það út, því engin merki sjást til þess á þessu .þingi, að breyta eigi stefnu stjórnarflokkanna í sparnaðarátt. Hitt er það, ef Sjálfstfl. fengi að ráða, þá yrði ýmislegt gert til sparnaðar, eins og t. d. það, sem hv. þm. Vestm. minntist á, fiskimálanefndin. Er nokkurt minnsta vit í því að hafa tvær skrifstofur hér í Reykjavík, sem .hafa nákvæmlega sama hlutverk og önnur gæti sem helzt annazt, þar sem er skrifstofa fiskimálanefndar og skrifstofa Sölusamlags ísl. fiskframleiðenda? Hvaða vit er í þessu, þegar það er vitað, að önnur stofnunin, fiskimálanefndin, hefir ekkert vit á því, sem hún er að vinna, og gerir ekki annað en illt eitt? Það liggur í augum uppi, að það væri ekki lítill sparnaður að fela sölusamlaginu allt starfið. Og svo allar þessar landssmiðjur, ríkisútgerðir og einkasölur. Þótt þær gefi ríkissjóði tekjur á pappírnum, þá er öldungis víst, að þessi starfsemi mundi gefa ríkissjóði miklu meiri tekjur, ef henni væri á annan hátt fyrir komið. Eða þetta frv., sem hér er til umr. Eins og það liggur fyrir, er mjög vafasamt, að það, sem sjávarútveginum er hér gefið með annari hendinni, sé ekki tekið með hinni, eins og hv. 9. landsk. sýndi fram á. Það á að afnema útflutningsgjald af sjávarafurðum, en svo er það fjöldi vara, sem til útgerðar eru notaðar, sem á að leggja á nýja tolla, það er akkeri, akkerisfestar, björgunartæki, blýsökkur, fiskbreiður, fiskinet, fiskilínur, fiskpressur og margt og margt fleira. Ekkert af þessum tollum var áður til. Þeir eru allir nýir. Og ég er ekki í neinum vafa um, að þótt sagt sé, að útflutningsgjaldið eigi að fella niður til hjálpar sjávarútveginum, þá verður ekki minni skattur á hann lagður með þessum nýju tollum, þennan atvinnuveg, sem er svo illa staddur, eins og jafnaðarmönnum ætti bezt að vera kunnugt með hliðsjón af bæjarútgerðinni í Hafnarfirði.

Þá var það hv. 1. þm. Eyf., sem virtist mjög gramur við sjálfstæðismenn fyrir það, að þeir væru alltaf og alstaðar að gera kröfur, bæði á Alþingi, á þingmálafundum og víðar, að þeir væru í því efni orðnir verri en kommúnistar. Það er sannarlega engin furða, þótt Sjálfstfl. geri kröfur, þar sem það virðist vera orðin gildandi regla hér á landi, sem felst í danska málshættinum „Frækhed belönnes“. Ef menn eru nógu kröfuharðir, þá hafa þeir sitt fram. Svo hefir það verið í stjórnarflokkunum. Ef flokksmennirnir eru nógu harðir, þá er látið undan. Það er því engin furða, þótt Sjálfstfl. gangi á lagið og fari eins að, heldur er það bæði skiljanlegt og eðlilegt. Stjórnarflokkarnir hafa gengið á undan með að láta undan hinum frekustu kröfum, þeir eru hræddir um fylgi sitt. Kjósendurnir eru það eina, sem þeir eru hræddir við, og þess vegna er þeim svo meinilla við, að Sjálfstfl. beri hag kjósenda fyrir brjósti. Þetta ætti hv. 1. þm. Eyf. bezt að vita. Hann hefir aftur á móti sennilega orðið þess var, að þegar Sjálfstfl. hafði meiri hluta á Alþingi, þá var hann hæfilega íheldinn sparnaðarflokkur, en nú, þegar hann er algerlega hundsaður, þá er ekki að furða, þótt hann vilji ekki mótstöðulaust ganga inn á nýja skatta handa stjórnarflokkunum. Þetta ætti hv. 1. þm. Eyf. að skilja, ef hann vill vera sanngjarn.

Þá var þessi hv. þm. að tala um það, að þessar 400 þús. kr. til bæjar- og sveitarfélaga mundu verða til þess að lækka útsvörin verulega. Ég býst ekki við því. Það mesta er, ef þessar tekjur kæmu á móti einhverju af þeim tekjum bæjar- og sveitarfélaga, sem ekki fást inn, vegna þess að lagt er á fyrirtæki, sem ekki geta borgað. En að bæjar- og sveitarfélögin sjálf fái þarna raunverulegar tekjur, hefi ég ekki trú á. Annars þykir mér það einkennilegt, að Alþingi skuli ekki vilja hugsa sæmilega fyrir tekjustofnum handa bæjar- og sveitarfélögum, heldur láta þau stöðugt vera á bónbjörgum til Alþingis. Sú leið, sem hér er farin, er ekkert annað en „homopatia“, gagnslaus fyrir framtíðina og einnig gagnslaus í svipinn.

Það hefir ýmislegt fleira spunnizt inn í umr. Það var talað um, að Sjálfstfl. hefði hækkað tollana 1924 ekki um 10%, heldur 25%. En það ætti að vera hverjum manni skiljanlegt, að það var auðvelt þá, í því árferði sem þá var. Allir vita, að nú er öðru máli að gegna; nú eru tollarnir þegar svo háir, að það er hreint einsdæmi. Það er þessi sífellda tolla- og skattahækkun, sem hefir komið bæjar- og sveitarfélögunum í það ástand, sem þau eru komin í. Bæjarbúar geta ekki keypt hinar hátolluðu vörur, nema kaupið hækki meir en það, sem atvinnufyrirtækin geta borgað. Allt eru þetta afleiðingar þeirrar skattaeða fjármálastefnu, sem aldrei hugsar um að spara. Ég er ekki í vafa um það, ef heilindi væru í sparnaðartali Framsfl., þá mætti finna marga liði á fjárl., þar sem hægt væri að spara, þótt ég ekki bendi á þá hér. Það er dálítið einkennilegt, þegar hæstv. fjmrh. er að krefjast sparnaðartill. frá okkur sjálfstæðismönnum en sjálfur leggur hann fram fjárlfrv. með 900 þús. kr. tekjuhalla. Hann segist muni gera fjvn. grein fyrir þeim leiðum, sem hann telji færar til að jafna þennan halla. Það er ekki vandi að koma með slíkar till., þegar vitað er, að þær ná fram að ganga. Eins mundi ég koma með margar sparnaðartill., ef ég hefði von um, að þær næðu fram að ganga á Alþingi. — Að lokum vil ég minnast á það, að mér finnst sami gamli tónninn í garð Sjálfstfl. hjá hv. stjórnarflokkum. Þeir bera þeim ýmislegt ófagurt á brýn, en álíta sjálfa sig flekklausa í alla staði. Það er því ekki nema eðlilegt, þótt á það sé minnzt, eins og hv. 9. landsk. (MG) gerði, þegar þessir hv. flokkar fóru á bak við fjvn. og hækkuðu útgjöld fjárl. á þinginu 1935 um 2 millj. kr. Það er sami „tendensinn“ og verið hefir, að álíta sjálfa sig ágæta í alla staði, en telja hina mæla allt af óheilindum og ósannsögli.