22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var ekki nema von, að, hæstv. forseti vildi, áður en ég tæki til máls, takmarka ræðutímann, því að ég mun vera þekktur að því hér í deildinni að hafa hann bæði langan og strangan.

Annars ætla ég ekki að taka þátt í þeirri orrahríð, sem hér hefir farið fram. En þegar um er að ræða skatta- og tollamál, verður okkur skattheimtumönnunum oft framarla fyrir að athuga aðrar hliðar þeirra en þær, hve háir skattarnir séu og tollarnir, sem sé þær, hvernig gangi innheimta þeirra fyrir ríkissjóð. Það er því ekki að kynja, þó að ég, sem hefi á höndum skattheimtu í fátæku héraði, líti svart á innheimtuna, ekki sízt þar sem atvinnuvegur þess héraðs er að falla í rústir, er sauðfé manna hrynur nú niður, en hæstv. stj. hefir hinsvegar í fjárlfrv. sínu ekki ætlað því héraði nema 3000 kr. í atvinnuskyni, það er til vegagerðar. Ég sé því ekki, hvernig það hérað á að geta borgað öll sín gjöld. Hér í frv. er nú benzínskatturinn hækkaður um einn eyri, og er ætlazt til, að það fé sé notað til vegagerða úti um land. En þarna hjá okkur Dalamönnum er vegastofn, frá Norðurlandsbrautinni, sem nú er að kvíslast út um allt Vesturland. Ég teldi því sanngjarnt að leggja nokkurt fé til hans. Ég kom í fyrra með till. um 12 þús. kr. til þessa vegar. Hæstv. fjmrh. segir, að vegna fjárpestarinnar verði ríkið að greiða þung gjöld. Hér gæti hann nú slegið tvær flugur í einu höggi, látið leggja veg til Vesturlands og jafnframt styrkt bændur og atvinnuveg þeirra, sem er að sligast vegna fjárpestarinnar.

Þá vil ég geta þess, að mér fannst við framsögu gæta nokkurs skorts innri rósemi hjá hv. 10. landsk., þar sem hann byrjaði með því að svara fyrirfram ímynduðum aðfinnslum við málið. Ég minnist þess, að ég var hér sammála stjórnarflokkunum 1934 um að afnema gengisviðauka á kaffi- og sykurtolli. Þá hrósuðu þeir sér af því að gangast fyrir afnámi þessa gengisviðauka. Þá var alls tollur á kaffikílóið 75 aur., en á sykurkílóið 19 aurar, en lækkaði niður í 60 aura og 15 aura. Nú ef þetta nær fram að ganga, verður tollurinn alls á þessar vörur 77–80 aura og 19–20. Á þessum vörum er því tollur hærri en hann hefir nokkurntíma áður verið, en á flestum öðrum vörum er þó sá munur langtum meiri.

Hæstv. fjmrh. sagði, að við sjálfstæðismenn ættum að hætta að tala um eyðslu stj., því að við flyttum sjálfir útgjaldatill. úr hófi fram. Fyrir mitt leyti man ég ekki eftir því að hafa komið með útgjaldatill. á næstliðnum þingum. Ég hefi yfirleitt frekar greitt atkv. gegn útgjaldatill. hæstv. stj., er hún hefir viljað auka eyðsluna. En þegar svo er komið, að stjórnarandstæðingar hafa ekkert fengið til sinna hugðarmála eða sinna kjördæma, en hinir tekið mest af því, sem átti að greiða af ríkisfé, til sinna hugðarmála og kjördæma, er ekki að undra, þó að við berum fram nokkrar till. til hækkunar og framdráttar kjördæmum okkar. En þá er það kölluð frekja og ósvífni.

Hv. 10. landsk. minntist á það hér áðan og fór að telja upp, hvað mörgum eyðslumálum einn hv. þm. hefði greitt atkv. Það er ekki kynlegt, þegar hver till., sem stjórnarandstæðingar koma með um framlög til nytjamála, er felld, að þeir reyni að leita fyrir sér, hvort þeir fái ekki samþykkta eina till., sem flokkurinn er með. Hitt er ekki sannað, sem hann vildi sanna, að ef sumt af þessum málum hefði gengið fram, þá hefði verið greitt atkv. með þeim öllum. Ég segi þetta út frá mínum bæjardyrum, því að hv. þm. Vestm. er maður til þess að svara fyrir sig.

Það er rétt, sem hv. 9. landsk. sagði, að á þinginu 1935 var farið á bak við okkur sjálfstæðismenn í fjvn. Þá unnum við að því með framsóknarmönnum og jafnaðarmönnum að lækka útgjöldin, en svo vitum við ekki fyrr en við lásum það í blaði stj., að stjórnarflokkarnir hefðu komið sér saman um stórkostlega hækkun á fjárl. Þetta sama sinn gátum við með sameiginlegu átaki fært niður fjárlfrv. eða gjöld þess um meir en 1 millj., og við sjálfstæðismenn í fjvn. komum því með brtt. til lækkunar um 700 þús. kr. og lýstum því yfir, að við myndum fylgja frekari lækkun, ef stjórnarflokkarnir æsktu þess. En það var síður en svo. Engin ósk kom fram um það. En þegar stj. átti að fara framkvæma þennan sparnað, þá fór allt úr reipunum hjá henni. Okkur var lofað því í blaði — ég man ekki, hvort ráðh. sagði það hér á þinginu 1934 —, að nú yrðu fjárl. afgreidd með öðru sniði en áður, þar sem þau væru að vísu há, en það kæmi ekki til neinna umframgreiðslna. Þetta væri ný leið, sem okkur væri óhætt að treysta. Nú erum við að vefjast með fjáraukal. frá sama ári, sem þá var verið að semja fjárl. fyrir, eða frá árinu 1935, og í stað þess að við héldum, að þau væru nokkur hundruð krónur, þá reynast þau vera 2 millj. 635 þús. kr. Þarna er ekki lítið vikið frá því, sem áður var lofað.

Ég sé, að hæstv. forseta er orðið tíðlitið til mín, svo að minn tími er líklega búinn. Ég vil ekki brjóta fyrirskipanir hans og lýk því máli mínu.