22.11.1937
Efri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það voru aðeins fáein orð. — Hæstv. fjmrh. talaði um það m. a., að tekjur almennings væru ekki minni hér en annarsstaðar. Það má vel vera, að svo sé í þeim löndum, sem hann minntist á. En þar er því til að svara, að dýrtíðin er hvergi í þessum löndum sambærileg við það, sem hér er, og sínir það m. a., að langt er gengið í þeirri eyðslupólitík, sem stjórnarflokkarnir hafa rekið á síðustu árum.

Einnig minntist hæstv. ráðh. á það, að útsvörin hefðu hækkað í Reykjavík um 108%, á móti því að tekjur í ríkissjóð hefðu hækkað um 58%. Ég vil í þessu sambandi minna á það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að það voru einmitt aðgerðir Alþingis, sem gerðu það að verkum, að útsvörin hækkuðu. Ég tók dæmi af Hafnarfirði, þar sem undanfarið hafa verið greiddar 90 þús. kr. til utanbæjarþurfalinga á ári. Þetta fé fékkst endurgreitt í bæjarsjóð að allverulegu leyti áður fyrr, þar sem ekkert kemur nú. Og þó að ekki sé farið út í nema þetta eina atriði, ætti hæstv. fjmrh. að skilja, að það eru gerðir Alþ., sem hafa gert þetta að verkum.

Þá er það hv. 10. landsk. Ég verð að segja, að þetta fór mjög í taugarnar á honum, og sennilega af því, að hann skammast sín fyrir að flytja þetta frv. eins og það er til komið, vegna þess að það er á móti því, sem hann var að halda fram, þann tíma, sem ég átti sæti á þingi. Þá var ætíð söngurinn sá, að ekki mætti hækka tollana, en nú er bann kominn á aðra skoðun.

Hv. þm. minntist á, að ég væri fullur úlfúðar gegn mínu bæjarfélagi. Þetta eru ósannindi. Ég er fullur úlfúðar í garð meiri hl. bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði, en það er ekki bæjarfélagið í heild sinni. Og það mun koma fram innan skamms, að meiri hl. bæjarstj. er ekki sama og meiri hl. bæjarfélagsins.

Þá minntist hv. þm. á ríkissjóð og að ég hefði sagt, að hann væri búinn að níðast svo á bæjarfélögunum, að þau ættu sér tæplega uppreisnar von. Það er rétt. Með þessari eyðslupólitík er búið að níðast svo á bæjarfélögunum, að þau geta ekki náð inn þeim tekjum, sem þau þurfa að hafa. Ég sýndi fram á, hvernig hefði verið farið með þá bæjarþegna, sem bæjarfélögin ættu helzt að fá tekjur af, og hvernig það væri með hví gert ókleift fyrir bæjarstj. að jafna niður þeim útsvörum, sem þær þarfnast. Þetta er „facta“, sem ekki er hægt í móti að mæla, hvorki af hv. 10. landsk. né öðrum.

Það hefir verið á það minnzt, bæði af hv. 10. landsk. og öðrum, að Sjálfstfl. færi ekki í sparnaðaráttina upp á síðkastið, heldur í hina áttina, og sérstaklega minnist hv. 10. landsk. á afstöðu hv. þm. Vestm. Ég verð að segja það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, þótt þeim finnist það einkennileg játning af mér, sérstaklega hv. 1. þm. Eyf., að það er svo komið nú á þessum tímum, að það er ekki til neins að koma fram með nokkurn sparnað í sjálfu sér. því að það er notað sem gríma á þann, sem kemur með það. En ef komið er með eitthvað í eyðsluáttina, þá er ekki nema sjálfsagt að taka á móti því. Og þegir Sjálfstfl. hefir borið fram slík frv., hefir enginn viljað taka undir þau. Og það er ekki satt, að það hafi engin nýtileg frv. komið frá sjálfstæðismönnum, því að einmitt allt það nýtilega er frá þeim, sérstaklega í sjávarútvegsmálum, en það hefir verið þannig með það farið af stjórnarflokkunum, að úr því hafa orðið krypplingar.

Þessar tekjur, sem sveitar- og bæjarfélögin eiga að fá, eru ekki nema lítill hluti af því, sem þau þurfa, og mætti sýna fram á þetta, a. m. k. hvað mitt kjördæmi snertir, ef tími væri til.

Þá minntist hv. 10. landsk. á fiskimálanefnd og S. Í. F. og þau hlutverk, sem þessar tvær skrifstofur hafa. Mér er spurn: væri það slæm ráðstöfun að sameina þessar tvær skrifstofur? Og heldur hv. 10. landsk. ekki, að skrifstofa S. Í. F. væri miklu færari um að framkvæma þetta verk en hin skrifstofan? Ég er viss um, að hann heldur það. En hann vildi ekki viðurkenna þetta hér á þingi vegna pólitískra skoðana sinna, en sem bankastjóri er ég viss um, að hann hefir aðra skoðun.

Ég ætla svo ekki að hafa orð mín fleiri að þessu sinni. En mér þótti það dálítið einkennilegt orðatiltæki hjá fulltrúa kommúnista hér í hv. d., mér fannst það ekki beint virðingarorð, sem hann notaði um sína kjósendur, þegar hann talaði um „sauðsvartan almúgann“. (BrB: Ég taldi mig þar með sjálfan). Vanalega er það orð haft í niðrunarskyni.

Að lokum vil ég biðja þá n., sem fær þetta frv. til athugunar, að athuga, hvort ekki muni vera hægt að færa til í flokkum það, sem sett er í 5. fl. með 30% tolli, taka þar undan grænmeti og ávexti og ýmislegt annað, sem þar kemur til greina, sem nauðsynlegt er hreint og beint að hafa ódýrara heldur en það er nú, en ekki fara að hækka það margfalt. Það er öllum hv. þdm. vitanlegt, að það verður að lækka toll á þessu, vegna þess að eins og nú stendur getur ekki almenningur í landinu notfært sér þetta, og einmitt sízt þeir, sem mest þurfa þess með, sem eru hinir fátæku. Þeir geta alls ekki notfært sér þessar vörur. Ég veit ekki, hversu miklar tekjur munu koma af þessu í ríkissjóð eftir frv. En ég býst ekki við, að þær séu svo miklar, að ekki mætti færa þessar vörur t. d. yfir í 2. fl.