22.12.1937
Efri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jóhann Jósefsson:

Þegar þetta mál var hér á ferð síðast, þá flutti ég brtt. um, að Vestmannaeyjar væru þarna gerðar jafnréttháar öðrum þeim héruðum, sem njóta góðs af benzínskatti til vega. Ég bjóst þá við, að þetta bæri öðruvísi að í Sþ. og það yrði tækifæri til þess að bera fram um þetta till. við afgreiðslu fjárl. í Sþ. En þetta kom ekki fram þar í því formi, sem ég hafði búizt við, en hefði ég vitað það, þá hefði ég ekki tekið brtt. mína aftur við 3. umr. hér í þessari d. Ég get ekki varið það að falla frá þeirri kröfu, að benzínskattur sá, sem fellur til í Vestmannaeyjum, sé að mestu leyti látinn ganga til þess að bæta vegina þar, af þeim ástæðum, sem ég hefi áður lýst og skal því ekki fara frekar út í hér. Og þó það sé að vísu leitt að fara fram á það, að málið fari aftur til Nd., horfir það þannig við frá mínu kjördæmi, og ég veit, að kjósendur mínir búast áreiðanlega við, að ég haldi fast við þessa kröfu.

Ég sé því ekki annan kost en leggja fram skriflega brtt. við frv., þegar það kemur hingað nú, sem er shlj. þeirri brtt., sem ég tók aftur á sínum tíma. En ég tók hana aftur af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar lýst. Ég vona svo, að hv. d. sjái, að ég flyt hér rétt mál, og geri sitt til þess að sætta líka þennan hluta landsmanna, sem hér um ræðir, við benzínskattinn, með því að samþ. þessa till., sem ég nú afhendi hæstv. forseta.