25.10.1937
Neðri deild: 10. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (1870)

38. mál, vigt á síld

*Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að fara út í neina harða deilu við hv. síðasta ræðumann út af því, hvort hann sé taglhnýtingur hv. þm. Ísaf. í þessu máli eða ekki. Ég get vel skilið það, að hann telji það engan sóma að vera slíkt, og vegna þess að alltaf hefir verið vingott með mér og hv. þm. Barð., þá vildi ég óska þess mjög eindregið, að slíkt yrði ekki um hann sagt með réttu. En það er bara svo, að þegar maður hefir fært sterk rök fyrir einhverju, þá verður manni það oft á að trúa rökunum, enda þótt þau kannske hafi ekki við raunveruleik að styðjast. Og um þetta vil ég svo láta nægja að segja það, að ég óska þess heitt, að hvorki hv. þm. Barð. eða aðrir hv. flm. þessa frv. hafi látið hnýta sér aftan í hv. þm. Ísaf., því slíkt væri engum þeirra til heiðurs. Ég get líka að sumu leyti látið nægja að taka undir rök hv. þm. Barð. um þetta mál, en vil þó segja það, að ég tel enganveginn sjálfsagt að vigta síldina, þó hægt væri að samræma þá aðferð sjálfvirku tækjunum. Ég er ekki viss um, að sú aðferð sé betri, hvorki fyrir sjómennina eða verksmiðjurnar. Hv. þm. treysti sér ekki heldur til að slá þessu föstu, þó hann væri gamall síldarmatsm., eins og hann sagði, en einmitt þetta ætti að vera honum alvarleg bending í þá átt, að rétt sé fyrir hann að gæta fullkominnar varúðar um fylgi við hv. þm. Ísaf. í þessu máli, og ég get verið ánægður með yfirlýsingu hv. þm. Barð. um það, að krafa hans um vigtun standi því aðeins, að vigtun verði við komið sambliða sjálfvirkum losunartækjum. Hinsvegar verð ég að telja það ekki sanngjarnt af honum að heimta það, að ég verði að sanna, að þetta sé ekki hægt. Það eru hv. flm. frv., sem vilja lögbjóða vigtun á síld og einnig vilja láta nota sjálfvirk losunartæki, sem verða að sanna það, að þetta geti farið saman, en ekki mitt að sanna það, að svo sé ekki. Og það er upplýst, að flm. geta ekki sannað þetta nú, eins og skylda þeirra var þó jafnframt því, sem þeir flytja þetta frv. Hv. þm. verður að viðurkenna það, að hv. 1. flm. gat ekki svarað, þegar ég spurði hann, hvar hægt væri að fá vigtunartæki, sem nota mætti í samhandi við sjálfvirku tækin, og hvað þau kostuðu. Hv. þm. Ísaf. svaraði einungis því, að einhverjir verkfræðingar hefðu sagt sér, að þetta væri hægt, en sagðist ekki sjá neina ástæðu til að gefa það upp, hvaða verkfræðingar þetta væru. eða hvar mundi vera hægt að fá þessi tæki.

Ég veit, að hv. þm. Ísaf. veit, að við höfum það álit hvor á öðrum, að svona umsagnir verða ekki teknar trúanlegar okkar í milli, og með mínum kunnugleika af þessum hv. þm. mun ég draga mínar eigin ályktanir. Hinsvegar var hv. þm. Ísaf. að bjóðast til að útvega mér tilboð um þessi vigtunartæki áður en frv. yrði afgr. frá þessu þingi, en vilji hann eitthvað greiða fyrir mér í þessu efni, þá mundi ég biðja hann að útvega mér heldur einhver önnur sambönd, því mér heyrist flestir, sem það hafa reynt, telja það litla gróðaleið að gera viðskipti í gegnum þennan hv. þm. — Ég get svo látið þetta nægja; ég læt mér vel líka ummæli hv. þm. Barð., en framkoma hv. þm. Ísaf. var eins og við var að búast af honum.