02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Finnur Jónsson:

Það er rétt hjá hv. þm. Dal., að mér hefir skotizt yfir 3. málsgr. 4. gr. frv., þar sem talað er um verðbreytingu á fóðurmjöli. En ég vildi minnast dálítið nánar á þetta kostnaðarverð síldarmjölsins. Ég gat þess áðan, að þessu ákvæði hefði aldrei verið framfylgt vegna þess, að menn í rauninni geta ekki reiknað út, þegar farið er að selja síldarmjölið, hvað kostnaðarverðið er. Og þetta ákvæði, sem er í núgildandi l. um síldarverksmiðjur, mun hafa verið tekið upp úr eldri l., án þess að flm. hafi gert sér ljóst, hvað þetta kostnaðarverð er. Ég vil taka af þessu dæmi. Ef kostnaðarverð síldarmjölsins á að vera það verð, sem þarf að vera á mjölinu, til þess að ríkisverksmiðjurnar rétt svari kostnaði, en gefi ekki neinn ágóða, þá getur verðið, ef lýsisverðið hækkar eitthvað frá því áður, orðið ákaflega lágt. Ef hinsvegar lýsisverðið skyldi lækka mjög mikið eða verksmiðjurnar fá litla síld, þannig að reksturinn bæri sig ekki, gæti kostnaðarverðið farið upp úr öllu valdi. þess vegna er það óheppilegt, bæði fyrir verksmiðjurnar og bændurna, að þessu ákvæði sé haldið í l. Í öðru lagi vil ég benda á, að þau atvik koma fyrir á hverju ári, að ekki er hægt að reikna út kostnaðarverð mjölsins fyrr en búið er að selja það allt, ef á að fylgja þeirri reglu, að selja mjölið svo ódýrt, að sá ágóði, sem kann að vera af rekstri verksmiðjanna, gangi allur til þess að lækka mjöl erðið.

Nú eiga verksmiðjurnar alls um 3800 tonn af síldarlýsi, en ekki nema um 700 tonn af síldarmjöli. Nú getur verið, að þetta síldarlýsi verði ekki selt fyrr en búið er að selja allt mjölið.

Meðan svo er, er ekki hægt að reikna út neitt, sem heitir kostnaðarverð á mjölinu. Það verður að miða algerlega við verð á erlendum markaði, og það er það, sem hefir verið gert.

Hv. þm. Dal. gat þess, að síldarmjölsverðið hefði verið leiðrétt í ár. Þetta er ekki rétt. Síldarmjölsverðið var fyrst ákveðið þannig, að það var miðað við verð á erlendum markaði og við það, að síldarverksmiðjurnar þyrftu að geyma mikið af mjöli fram eftir vetrinum og létu mikið af því án staðgreiðslu. Það, sem gerist, þegar mjölverðið er reiknað út, er ekki annað en það, að tekið var tillit til vaxtataps og geymslukostnaðar, sem hv. þm. með þessu frv. leggur til, að verði gert. Nú fóru fram ýms samtök bænda um það, að kaupa síldarmjölið gegn staðgreiðslu að loknum síldveiðitímanum, þannig, að það féll ekki á það neinn geymslukostnaður eða vaxtatap. Þá var sett sérstakt verð á mjölið, miðað við þesskonar afhending. Annað hefir ekki gerzt á þessu ári viðvíkjandi mjölverðinu. Það hefir komið fyrir oft áður, að síldarmjöl frá verksmiðjum ríkisins hefir verið selt innanlands hærra verði en fékkst fyrir það á erlendum markaði. Það er full ástæða til að setja ákvæði, sem hindri, að það sé gert. Hinsvegar hefir þetta ekki átt sér stað síðan núv. verksmiðjustjórn tók við völdum, heldur hefir verið farið svo nærri kostnaðarverði sem föng eru á.

Ég vil ítreka þau tilmæli mín við hv. landbn., að hún feili niður þetta ákvæði um kostnaðarverð, en setji í staðinn, að mjölið verði selt innanlands tilsvarandi sama verði og erlendis, að frádregnum geymslukostnaði og útflutningsgjaldi.