02.11.1937
Neðri deild: 17. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

65. mál, fóðurmjölsbirgðir o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Án þess að fara að ræða um þetta frv. vil ég segja frá því, að þetta mál er í undirbúningi hjá Framsfl., og var það þegar í þingbyrjun. Því það hefir sýnt sig, að ákvæðin, sem nú eru í lögum um þetta, eru óframkvæmanleg. En það eru eiginlega þau gömlu ákvæði, sem mér skilst, að þetta frv. eigi að staðfesta. — Tveir af þm. Framsfl., hv. þm. Mýr., Bjarni Ásgeirsson, og hv. 2. þm. Skagf., Steingrímur Steinþórsson, hafa samið frv. um málið og höfðu það fullbúið fyrir viku. Ég býst við, að það verði bráðlega borið fram hér í d. — Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ísaf., að ákvæðin um kostnaðarverðið eru óframkvæmanleg. Það þurfa að vera gefnir nógu margir „faktorar“ í dæminu til þess, að hægt sé að reikna það. Auk þess ræki þetta sig á önnur ákvæði, sem alls ómögulegt yrði þá að framkvæma, sem sé, að síldarverksmiðjur ríkisins kaupi síldina líkt og samvinnufélög og borgi hana síðar í hlutfalli við það, sem fæst fyrir afurðirnar á erlendum markaði. Ef sú regla væri tekin upp samkv. lögum, yrði aldrei hægt að reikna út kostnaðarverð. Þegar vel seldist, yrði þannig þeim mun hærra verðið til sjómanna og útgerðarmanna. Ákvæði um kostnaðarverð er óleyfilegt að setja í lög af því, að þau stríða gegn þessu. En hvort sem væri, eru þau óframkvæmanleg. — Núna liggur mikið af afurðunum óselt. Þess vegna er alls ekki hægt að segja bændum, hvað mjölið ætti eiginlega að kosta. En það hefði valdið óánægju, ef ekki hefði verið ákveðið verð, þó raunar megi segja, að það hafi orðið að ákveða það út í bláinn.

Annað, sem hv. þm. Ísaf. benti réttilega á, var munurinn, sem frv. gerir á síldarverksmiðjum ríkisins og öðrum. Síldarverksmiðjur ríkisins einar yrðu látnar leggja til tugi þúsunda í styrk til fóðurbætiskaupa. Það mundi geta numið a. m. k. 80 þús. kr. á ári, að því er þeir, sem kunnugastir eru, telja. Þess vegna er farið fram á það í frv. þeirra hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf., að sú skylda verði lögð á allar síldarverksmiðjur, sem fyrir eru í landinu. Ég álít það stórum réttara en að leggja byrðina á síldarverksmiðjur ríkisins einar, til að gera þeim erfitt að standast samkeppni.