12.11.1937
Neðri deild: 25. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

80. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Frv. á þskj. 100 er um efni, sem ekki er ókunnugt þessari hv. deild. Eins og í grg. segir, er farið fram á það, að breytt verði nokkrum höfuðatriðum í jarðræktarl. frá 1936. En þetta eru líka atriði, sem almenningur í landinu vill breyta. Nú liggur hér fyrir þinginu annað frv., á þskj. 78, þar sem einnig er farið fram á breytingar á þessum sömu 1., og má segja, að sumt af því, sem farið er fram á í frv. okkar, sé að efni til það sama og fyrir kemur á vissum stöðum í frv. á þskj. 78. En okkur og fleirum þótti hlýða að bera þetta fram sérstaklega, til þess í fyrsta lagi að gera aðgengilegra að breyta þessum ákvæðum l., sem ekki verður deilt um, að almenningur hefir lýst fylgi sínu við að breytt yrði, og í annan stað þykir rétt, að það komi fram, að það eru einkanlega þessi ákvæði l., sem vænta má, að geti orðið nokkur samvinna um að breyta.

Ég þarf ekki nú að fara inn á höfuðefni þessa máls, sem mjög hefir verið rætt um allt land og einnig hér á þinginu, sem sé þau ýmsu ákvæði jarðræktarl., sem deilt hefir verið um og rædd hafa verið af þar til kvöddum mönnum í útvarpi og öllum landsmálafundum og kosningaundirbúningsfundum hvarvetna um landið.

Það er kunnugt, að það er mikil óánægja með þau nýju ákvæði, sem er að finna í 11., 12. og 13. gr. jarðræktarl. um hámarksstyrk til búnaðarframkvæmda. Og það verður ekki á móti því mælt, að þau ákvæði, eins og þau eru, hafa möguleika til þess, og jafnvel þegar framkomna, að gera það að verkum, að framkvæmd jarðræktarl. verður ekki svo sem skyldi og ætlazt var til. Má ekki hvað sízt segja þetta um 17. gr. l. Þessi gr. hefir vakið óvild mikils hluta bænda og þeirra, sem framkvæma jarðrækt í landinu. Hún hljóðar um það, eins og kunnugt er, að þeir sjálfir verði ekki áfram eigendur þessara umbóta, sem þeir hafa framkvæmt. Þegar þessi l. voru fyrst borin fram fyrir landslýð, var að vísu nokkur meiningarmunur hjá mönnum um það, hvernig bæri að skilja þessa gr., en allt bar það að sama brunni, að eignarrétturinn væri ekki hjá þeim, sem framkvæmdu. Sumir hafa haldið því fram, og það með nokkrum rétti, að þetta yrði eign hins opinbera, ríkisins, en aðrir hafa haldið fram hinum svo kallaða millieignarétti, sem sé, að býlin sjálf gætu talið sér þetta, þótt það standi öfugt við það, sem áður hefir gilt um eignarrétt. En hvað um það, þetta ákvæði hefir öðrum fremur orðið til þess, að menn hafa ekki ráðizt í jarðabætur eða ekki hirt um að telja þær fram og fá styrk út á þær. En hvorttveggja þetta er vitanlega gagnstætt því, sem ætlazt er til með þessum l., og þess vegna er ekki viðlit að ganga þegjandi framhjá þessu ákvæði ár eftir ár, án þess að gera tilraun til að fá því breytt.

Ég tel svo ekki þörf á því að fara frekar út í þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist, en get vitnað til þeirra ástæðna, sem eru færðar fram fyrir líkum eða sömu breytingarákvæðum í frv. til jarðræktarlaga á þskj. 78.

Tilgangurinn með þessu frv. er að gera það auðveldara að komast að réttri niðurstöðu um að breyta þessum l., og vænti ég, að á það verði fallizt.

Vil ég svo leyfa mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og landbn.