23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Það eru nú því miður ekki margir viðstaddir þeirra manna, sem bera ábyrgð á fiskimálan. og hennar gerðum undanfarin ár. Það lítur út fyrir annað tveggja, að það fylgi ekki mikill hugur þessu frv., sem þeir bera fram, eða að þeim finnist ekki beinlínis eftirsóknarvert að þurfa að standa fyrir máli sínu. En þetta má á engan hátt standa í vegi fyrir því, að þeir menn, sem mótfallnir eru þeirri skipun, sem til var stofnað með skipun fiskimálanefndar og til er stofnað á ný með þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 163, beri fram þau rök, sem gegn því eru, að þessi n. fái að starfa í sama anda og á sama hátt og hún hefir gert hingað til.

Það er ekki nema eðlilegt, þegar það er til umr., að fá þessari n. nýtt fé í hendur, þar á meðal sennilega á annað hundrað þús. kr. á ári beint frá fiskeigendum, þó að menn vilji þá rifja upp, hvernig hún hefir farið með það fé, sem henni hefir áður verið fengið í hendur, og hvernig fiskeigendur, þeir, sem afla þessara afurða, líta á n. og störf, hennar.

Það er ekkert leyndarmál, að þegar þessi n. var stofnuð, þá litu þeir menn svo á, sem gengizt hafa fyrir því að afla verðmæta úr sjónum, að n. væri miklu frekar sett til höfuðs þessum atvinnurekstri en honum til styrktar og eflingar. Og það fyrsta, sem sannaði þetta mál, var það þegar til þess var tekinn maður, að vera formaður n., sem vitað var um, að ekki þekkti neitt til þessa atvinnurekstrar, maður, sem vera má að þekki þorsk frá ýsu, en hefir hvorki fengizt við að afla sjávarafurða, verka þær eða verzla með þær í neinni mynd.

Það er ákaflega ósennilegt, að ef stj. og stjórnarflokkarnir hefðu stofnað til þessarar n. með það fyrir augum, að n. hefði forgöngu í því að koma hag sjávarútvegsins á betri grundvöll en hann hvílir á, að þá hefði verið valinn maður til þeirrar forgöngu, sem ekkert þekkti inn á þessi mál á neinu sviði, hvað sem hans hæfileikum að öðru leyti liði. En þetta var gert. Nú var vitanlega beðið átekta um það, hvernig n. leysti verk sitt af hendi. En það var ekki fyrr en nýlega, að n. fékkst til þess að gefa nokkra skýrslu um störf sín. Þetta er skýrsla fyrir tvö fyrstu árin. Að sönnu er flest það, sem í skýrslunni er, um ýmsa aðra hluti en störf n„ og margt er þar óviðkomandi algerlega hennar verkahring. Þar er þulið upp eitt og annað um afrek einstakra manna á þessu sviði. En í þessari skýrslu eru þó reikningar n. fyrir árin 1935–1936, og í gegnum þessa reikninga er hægt að sjá nokkuð, hver afrek n. í þessi tvö ár hefir unnið.

Fyrra árið hefir n. fengið í sínar vörzlur 136 þús. kr. Nú segist hv. frsm. þessa máls svo frá, að n. hafi aðallega haft það verk með höndum að styrkja ýmsar nútíma framkvæmdir á sviði sjávarútvegsins og gera sjálf ýmsar tilraunir í þessa átt. Þegar maður athugar reikninga fyrsta ársins,ber lítið á styrkjum. Það sést, að sá styrkur, sem greiddur hefir verið af n., er aðeins rúmar 19. þús. kr. En af því að ég finn ekki neinstaðar í reikningunum kostnað við að gera kvikmynd í þágu sjávarútvegsins, þykir mér líklegt, að sá kostnaður sé innifalinn í þessari upphæð. Og þá er lítið eftir annað en styrkur til karfaveiða, 5660.25 kr. Þessi kvikmynd er á reikningum sama árs talin á 10495.46 kr., en á eignareikningi næsta árs er hún talin á 100.00 kr. Það hefir orðið mikið verðfall á þessari dýru eign. En það er ekki svo undarlegt. Hún átti að notast til þess að útbreiða þekkingu á íslenzkum sjávarútvegi, sennilega bæði aflabrögðum landsmanna og verkun og hagnýtingu fiskjarins. Til þess var fengin sérfræðingur; hann mun hafa verið frá Þýzkalandi, einhver kvikmyndatöku-prófessor, eða dósent kannske. En verk haus eru þessi, að í myndinni er ekkert til, sem kemur sjávarútveginum við. Mestur hluti hennar er af samkvæmislífi á hótel Borg. Og þetta átti að útbreiða þekkingu á sjávarútvegi Íslendinga. Það hefðu líklega þurft að vera 9 menn í n. til þess að það hefði getað orðið eitt atriði í myndinni úr sjávarútvegnum, þó ekki hefði verið nema mynd af formanni n„ því myndin af honum lítur betur út en myndin af verkum hans.

Það er bezt að halda áfram með þessa mynd, sem hér er dregin upp í reikningunum af störfum n. Þar ber mest á einskonar braski og svo stjórnarkostnaði eða rekstrarkostnaði. En það er vitanlegt, að það var ekki á það minnzt einu orði, að þessi n. færi að hafa með höndum neitt brask. Hún átti aðallega að vera til þess að styrkja þá menn, sem hafa vit á og framtak til að gera ýmsar nýjungar á sviði sjávarútvegsins. En hér sést, að n. hefir aðallega buslað í hraðfrystingu. Hún hefir sent fisk til Póllands, og það virðist hafa gengið bærilega, því tekjur sjást engar, en gjöldin hafa verið 44721.86 kr. og annar kostnaður 28247.82 kr., samtals 72969.68 kr. Þetta er ekki alveg frádráttarlaust, því upp í þetta hafa komið 1778.66 kr., og þá eru eftir 71191.02 kr. Þetta er nokkuð risavaxið í sambandi við það, sem n. hefir varið til styrktar mönnum til nýbreytni í þessum atvinnurekstri.

Þá kemur árið 1936. Þá er veittur styrkur, sem virðist vera talsvert meiri, þ. e. a. s. ef talið er með það, sem n. hefir látið af mörkum til Þórsleiðangursins til sjómælinga og rannsóknar fiskimiða. En það var samþ. hér á Alþingi, að ríkið léti gera þetta. Til þessa hefir n. varið 22 þús. kr. Alls eru þá styrkirnir um 59 þús. kr. En þá er ekki hraðfrystibraskið alveg úr sögunni, því það ár hefir n. sent hraðfrystan fisk til Ameríku. Á þessum fiski virðist hafa orðið 42 þús. kr. tap. Og í viðbót við þetta hefi ég heyrt, að n. hafi sent, og það er víst, að hún sendi fisk á yfirstandandi ári til Ameríku. Og sagt er mér, að fiskurinn hafi ekki gert betur en að borga kostnaðinn og muni hafa tapazt allur, og er það tap um 100 þús. kr.

Ég veit ekki, hvort það finnst nokkur maður í útgerðarstétt eða fiskimannastétt, sem telji, að afrek fiskimálanefndar svari til þeirra stóru orða, sem höfð voru víð stofnun n. Og víst er um það, að ef fiskeigendum hefði farið svipað ár hendi þeirra starfsemi og þetta, þá mundi það ekki hafa verið talið hrósvert um það, hvað n. að öðru leyti hefir afrekað á yfirstandandi ári, er ekki kunnugt, því hún hefir enga skýrslu gefið út. En þessi tvö ár, sem reikningarnir ná yfir, hefir n. fengið, eftir rekstrarkostnaðinum, í sinn sjóð frá fiskeigendum og ríkissjóði 340 þús. kr. rúmlega. En það er ekki fundið, að farið hafi í styrki meira en 78 þús. og svo er ekki skýrsla nema að litlu leyti yfir það, til hvers þessir styrkir hafa farið.

Þessi afrek n., sem hægt er að sjá af reikningunum, mæla að minn viti ákaflega slælega með því, að þetta þing, sem nú situr, fari að leggja fram yfir ½ millj. kr. til að láta þessa n. fara með. Það lítur út fyrir, að hún muni aðallega verja því í misheppnað brask, og þó hún kunni að segja sér til málsbótar, að það séu tilraunir á ýmsri nýbreytni, þá er það víst, hvað snertir hraðfrystifiskinn, sem sendur var til Ameríku, að þar var um kapphlaup að ræða við fiskeigendurna sjálfa, en með þeim árangri, sem ég hygg. að enginn muni í móti mæla, að sé með mestu endemum.

Ég hefi á það minnzt, að það verði ekki fundin mjög mikil nýbreytni hjá n. eða að hún hafi styrkt mikla nýbreytni, og fer ég ekki frekar út í það vegna þess, að hv. þm. Snæf. hefir sýnt óhrekjanlega fram á, að það, sem n. hefir verið að káka við, hefir ekki verið nein nýbreytni; það hafa verið hlutir, sem áður hefir verið byrjað á og n. vasazt inn í, oftast nær með leiðinlegum árangri.

En það eru fleiri vitnisburðir til um afrek n. og hversu mikils styrks þeir menn, sem bezt hafa vit á, vænta af n. fyrir þessa miklu atvinnugrein. Það hefir komið til kasta þeirra manna, sem aðallega hafa byggt upp sjávarútveginn hér og standa undir honum, sem sé útgerðarmanna og annara fiskeigenda, að segja sitt álit á þessari n.

Það má vel segja það, að þeir menn hér á þingi, sem eru viðriðnir sjávarútveginn, hafi ekki umboð til að fella dóm fyrir hönd fiskeigenda yfir störfum þessarar n. En það hefir fengizt tækifæri til að fá þeirra álit fram í þeirra eigin hóp. Og ég vil vitna í það, sem hv. þm. Snæf. minntist á áðan, að félag fiskeigenda á Íslandi hefir haft málið til meðferðar á sérstökum fundi og sagt álit sitt um það, sem n. hefir afrekað og vonir standa til, að hún muni afreka í framtíðinni.

Á fundi, sem fiskeigendur héldu hér í Reykjavík 3.–4. apríl 1936, var samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. fundarályktun, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa hér upp:

Aukafundur S. Í. F. lítur svo á:

1. Að fiskimálanefnd hafi unnið fisksölunni tjón og álitshnekki með afskiptum af fisksölunni til Norður-Ameríku.

2. Að stj. S. Í. F. geti annazt flest störf n. því nær kostnaðarlaust, og sé betur til þess treystandi að leysa þau vel af hendi.

Skorar fundurinn á Alþingi að láta fiskimálanefnd hætta störfum nú þegar, og ráðstafa verkefnum hennar eins og lagt er til í frv., sem nú liggur fyrir Nd. Alþingis (þskj. 51)“. — En það var frv. til l. um að fresta framkvæmd fiskimálanefndar og leggja verkefni hennar sumpart undir ríkisstj. og sumpart undir fisksölufélagið.

Ennfremur samþ. þessi fundur hér aðra ályktun, sem ég ætla einnig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp:

„Fundurinn telur eðlilegt, að framkvæmdarstjórar S. Í. F. sjái um sölu á öllum fiski, sem félagsmenn þurfa að láta selja fyrir sig, í hvaða ástandi sem hann er. Einnig telur fundurinn, að framkvæmdarstjórar félagsins hafi bezt skilyrði til að leysa söluna vel af hendi og með hóflegum kostnaði fyrir fiskelgendur. Felur því fundurinn stj. að undirbúa og leggja fyrir næsta aðalfund þær breyt. á félagslögunum, að S. Í. F. skuli sjá um sölu fiskframleiðslu félaga sinna, í hverju verkunarástandi sem hann er“.

Og síðan hefir það gerzt, að þetta félag, S. Í. F., hefir sett þetta inn í l. sín. Það, sem veldur því, að S. Í. F. lítur svona á, að n. hafi yfirleitt ekki unnið útgerðinni gagn og að fisksölusambandið standi betur að vígi að leysa verkið vel af hendi heldur en n., stafar af því, að fyrst og fremst hefir sölusambandið yfir miklu fjölbreyttari reynslu og kröftum að ráða í þessum efnum en fiskimálan., og í öðru lagi er eðlilegast, að allsherjar félagsskapur fiskeigenda hafi með þessi sölumál og tilraunir vegna útvegsins að gera. Það er miklu eðlilegra, að hann taki að sér þetta verk en einhver n., sem skipuð er af handahófi og kannske pólitískt.

Í þriðja lagi stafar þetta af því, að fiskeigendur hafa séð, hvernig geysifé fór í súginn hjá þessari nefnd, en hafa hinsvegar ekki þótzt sjá árangur sem telja mætti verulegan, til framdráttar fyrir útgerðina.

Ég þykist sjá, að hæstv. forseti lítur á klukkuna. Mér er sama, þó að ég skipti ræðu minni. [Frh.]