08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (869)

53. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

*Pétur Ottesen:

Það er aðeins litil fyrirspurn til hv. frsm. um það, hvað meint sé með ákvæðum 1. gr. frv., sem mér skilst, að sé alveg óbreytt í brtt. frá því, sem þau voru í frv., að öðru leyti en því, að þar er bætt inn í, að styrkinn megi einnig veita til kennslukvikmyndasafna, sem er sjálfsagt þarft út af fyrir sig. En fyrirspurnin er um það, hvort sýslubókasöfn, sem eru starfandi utan kauptúna, verði þessa styrks aðnjótandi samkv. orðanna hljóðan í 1. gr. frv. Mér skilst, að orðalagið sé þannig, að þau eigi að njóta styrks, ef þau eru starfrækt utan kauptúna.

Svo vil ég ennfremur gera fyrirspurn um það, á hverju það er byggt, að lestrarfélög, sem starfrækt eru í kaupstöðum og kauptúnum, eru undanþegin því að njóta nokkurs styrks samkv. ákvæðum þessa frv. Og þá einnig, á hverju það er byggt, að sýslubókasöfn, sem starfandi eru í kaupstöðum, séu undanþegin þessum styrk. Það er vilað, að sýslubókasöfn njóta nú í fjárl. ofurlítils styrks, en sá styrkur er hverfandi lítill, eins og kunnugt er, og er hann þess vegna lítill liður í starfrækslu þessara sýslubókasafna. Ég vil óska þess, að hv. frsm. gefi skýringu á þessu, því að það er hægt um vík að breyta þessu, ef hægt er að fá samkomulag um það. En fyrst vil ég heyra skýringu hv. frsm. og ástæðuna fyrir þeirri útilokun, sem mér virðist vera samkv. l. gr. á því, að sýslubókasöfn og lestrarfélög njóti styrks, ef þau eru starfrækt í kaupstöðum eða kauptúnum.