21.12.1937
Sameinað þing: 18. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

21. mál, bændaskólar

*Jón Baldvinsson:

Það er ekki heldur ætlun mín að hafa um þetta mörg orð. En hv. 2. þm. Skagf. hefir talað ekki allstuttan tíma, þegar tillit er tekið til þess, að hann sagðist ætla að segja aðeins örfá orð, svo að ég vona, að mér fyrirgefist, þó að ég fari um það örfáum orðum á hans mælikvarða. Það er algerlega rangi hjá hv. þm., að ég misskilji nokkuð þessa brtt. hans. Þó að tekið sé fram, að þeir hafi unnið að almennum landbúnaðarstörfum, — hverjir eiga að meta þetta? Ætli það séu ekki kennararnir? Og þetta er skilningur hv. þm. sjálfs, og hann hefir verið búnaðarskólastjóri talsvert lengi. En hvaða mælikvarða setur hann sem búnaðarmálastjóri á þá, sem rækta kringum kaupstaðina, þegar hann skapar þeim atkvæðisrétt í Búnaðarfélaginu? Er það ekki svo, að þeir þurfi að vera 4–5, sem hafa stærst löndin, til þess að hafa fulltrúa? Eftir nýjustu samþykktum Búnaðarfél. eru þeir réttlausir. Ætli það verði ekki svipaður mælikvarði, sem hv. þm. sem búnaðarmálastjóri vili leggja á þetta, þegar sett verður reglugerð um þetta efni? Það getur vel verið, að búnaðarmálastjóra og skólastjórum tækist að setja saman einn ungling úr 5–6 unglingum, sem eru í kaupstöðum, sbr. réttinn til að hafa fulltrúa, og hvort þeir tækju þá sinn liminn á hverjum stað, veit ég ekki, eða hvernig þeir vildu hafa það.

Ef því litið er á mælikvarða og skilning hv. 2. þm. Skagf. á þann rétt, sem ræktunarmenn kringum kaupstaðina hafa gagnvart Búnaðarfél., þá er hætt við, að synir slíkra mættu þeim skilningi í búnaðarskólunum, að þeir yrðu dæmdir að þessu leyti eftir öðrum mælikvarða og þeirra ræktunarstarf en hinna, sem koma frá afdalakotum, sem teljast sérstök „jörð“. Ég sé ekki, að ég misskilji þetta nokkurn skapaðan hlut, með þær reglugerðir og ákvarðanir í huga, sem Búnaðarfél hefir áður sett.

Hv. þm. sagði, að foreldrum væri vorkunnarlaust að láta unglinga þá, sem ætluðu að fara í búnaðarskóla, alast upp með það fyrir augum. Það er kannske ekki gott að sjá fyrir á ungbörnunum, hvort þau vilja verða sveitamenn eða hafa í sér fólgna löngun til náms í búnaðarskóla, þegar þau eru 12 ára eða meira, til þess að sé hægt að miða þeirra uppeldi við það.

Bæði þm. hér í sameinuðu þingi og eins í Ed., þeir sem rætt hafa um málið, hafa tekið stýrimannaskólann til samanburðar og fundizt nokkur rök í því, þar sem skipstjóraefnum er gert að skyldu að hafa siglt tiltekinn tíma og náð tiltekinni kunnáttu áður en þeir koma í skólann. Skipstjórum er ætlað að stýra skipi og bera ábyrgð á því. En ég skil bændaskólana svo, að þeir eigi að mennta bændur. Að það eigi ekki að vera eingöngu framleiðsla á búfræðingum, sem séu leiðbeinendur fyrir bændur, heldur ali upp menntaða bændur, sem kunna landbúnaðarstörf og þekkja sínar jarðir. Svo að það er alls ekki til samanburðar að ala menn upp í heila, stóra atvinnustétt, eða í þrönga stétt, eins og til stýrimennsku og skipstjórnar. En sé meiningin að halda þessum samanburði áfram, þá má álykta, að hann hugsi sér, að allir þessir búfræðingar verði leiðbeinendur fyrir bændur. En sannast að segja hefði ég haldið, að bændur þyrftu þess frekar með, að slíkir menn kæmu og ynnu að landbúnaðinum, en væru ekki bara á ferðalögum til þess að vaða í klof á vaðstígvélum um fen og mýrar og benda bændum si svona: Hér á að gera skurð, og þarna á að rækta garð. Ég hefi haldið að bezt væri, að bændur hefðu þessa þekkingu sjálfir til að vinna á sínum eigin jörðum, og sé það því aðaltilgangur bændaskólanna að ala upp menntaða bændastétt, sem viti sem bezt sjálf, hvað hentar í búskap á voru landi.

Ég vil aðeins endurtaka það um þessa till., að ég tel það mjög rangt að halda henni svona stíft fram, til þess í raun og veru að ganga á rétt mikils meiri hluta landsmanna. Og ég vil því vænta, að þessi brtt. verði felld. En ég álít rétt, sem hæstv. landbrh. sagði um daginn, að réttast væri að taka þessa till. aftur, til þess að þurfa ekki að stofna þessu máli í voða.