06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

46. mál, samvinnufélög

Einar Árnason:

Það hefir komið í ljós við þessar umr., að hv. 1. þm. N.-M. og hv. 1. landsk. fyrirlíta af hjarta krónurnar. Ég verð að segja það, að jafnvel þótt þeir öfluðu himneskra fjársjóða, held ég, að þeir ættu líka að líta á þessar krónur, sem við erum flestir svo sólgnir í og ganga á milli okkar. Ég játa mínar syndir á þessu sviði. Ég fyrirlit ekki krónurnar. Ég hefi reynt að starfa þannig að þeim félagsmálum, sem ég hefi verið við riðinn, að fyrirlíta ekki krónurnar. Og ég er kominn að þeirri niðurstöðu eftir langt starf, að það hefir ekki verið þýðingarlaust til þess að hjálpa áfram því fólki, sem erfitt á með sína lífsframfærslu.

Annars þykir mér dálítið einkennilegt, að báðir þessir þm. hafa látið í ljós, að þeir hafi aldrei vitað eða skilið. hvað lægi á bak við þetta frv. Það er eins og það sé að renna upp ljós fyrir hv. l. landsk. um það, að þetta frv. grípi eitthvað inn í viðskipti og krónur. Satt að segja hélt ég, að frv. bæri greinilega með sér, að það eru þessar syndsamlegu krónur, sem um er að ræða. Mér hefir aldrei verið nein launung á því, að það kemur skýrt fram í frv. Það er engu líkara en þessir hv. dm. séu bæði blindir og heyrnarlausir. Ég hefi margsinnis tekið fram, hvernig þessum málum er fyrir komið hjá nágrannaþjóðunum. Þeir taka ekkert tillit til þess og virðast álita, að það sé tóm vitleysa, sem ég er að fara með. Ég hefi beðið þá að benda á einhverja þjóð, þar sem samvinnumál eru á þroskuðu stigi, sem miði eingöngu við höfðatöluna í félögunum, eins og gert er hjá okkur. Þeir hafa ekki gert það. Svo tala þessir hv. þm. um, að hér eigi að fara að brjóta allar reglur um samvinnumál allra þjóða og taka upp hlutafélagsfyrirkomulag. Mig skiptir engu máli, hvort þeir kalla það því nafni. Það, sem ég ber fyrir mig. er þetta, að nágrannaþjóðir okkar, eins og t. d. Svíar, sem komnir eru lengra en við í þessum einum, hafa þetta þannig.

Annars sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál. En mig furðar það, að hv. þm. skuli ekki hafa skilið það fyrr en nú, hvað farið er fram á í þessu frv.