06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

46. mál, samvinnufélög

Jónas Jónsson:

Út af þeim orðum fulltrúa kommúnista hér áðan. að hann hefði ekkert á það minnzt á fundi Kron, að hann vildi reka kaupfélagsstjórann frá starfi sínu, af því að hann stóð á móti þeim lögleysum, sem þessi hv. þm. var svo framarlega í, vil ég taka það fram, að hv. þm. veit sjálfur, að hann sagði þessi orð, og það svo hastarlega og opinberlega, að alkunnugt er orðið, þótt hann gerði það ekki í ræðuformi. Og það er enganveginn óheppilegt, að hann skuli sýna skyldleika sinn við fyrrv. lögreglustjóra í Rússlandi, sem hefir ekki elskað sannleikann nógu mikið þar í landi, eftir því sem maður heyrir. Hv. þm. hefir sýnt það greinilega í umr., að hann er hér eins og annarsstaðar að reyna að gera tilraun til þess, þó af veikum mætti sé, að styðja það, sem verr hentar. En hann mun sjá það við atkvgr., að hans áhrif megna lítils hér eins og annarsstaðar.