05.05.1938
Efri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég stend ekki upp til að tefja hér umr. Ég held, að þó að við kommúnistar lítum öðrum augum á þetta mál en hv. dm., sem talað hafa, og þó að allir þdm. séu ef til vill ekki sammála um lausn þess, þá getum við allir verið sammála um, að það þarf að afgreiða málið sem fyrst. Ég vil því aðeins í fáum orðum lýsa afstöðu Kommfl. til þess. Það er sagt, að fyrir liggi beiðni frá stýrimönnum um gerðardóm, en þetta er ekki rétt, því að beiðnin er frá stj. fél. og samningan. Það er alveg víst, og liggja fyrir því ótvíræð gögn, að stýrimenn óska ekki eftir gerðardómi, heldur þykjast þeir tilneyddir. Og þessum orðum mínum til sönnunar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr grg. frá stj. og samningan. félagsins um deiluna:

„Á mánudag 2. maí kallaði sáttasemjari á okkur að nýju. Hann tilkynnti okkur, að forsætisráðherra hefði skrifað sér og óskað eftir því, að hann bæri fram tillögu við okkur um frjálsan gerðardóm.

Þessu höfnuðum við. Gerðum við það vegna þess, að við þykjumst vita fyrir fram, að slíkur gerðardómur yrði þannig skipaður, vegna þess að aðiljar gætu ekki komið sér saman um oddamann, að okkar hlutur yrði fyrir borð borinn, og svo ennfremur vegna þess, að við teljum þá leið með öllu óhæfa, þ. e. a. s., meðan öll laun í landinu, jafnt hárra sem lágra, ekki eru ákveðin af neinum slíkum dómstóli.

Hinsvegar verður maður að gæta þess, að þegar öll sund eru lokuð og sáttatilraunir allar hafa reynzt árángurslausar og yfir vofir að fá gerðardóm skipaðan íhalds- og framsóknarmönnum, sem, ef ráða má af Nýja dagblaðinu, ekki bera hlýjan hug til sjómannastéttarinnar yfir leitt, og þá ekki heldur til stýrimanna, þá má vera, að stýrimenn sjái sig tilneydda, með tilliti til hags alþjóðar, að ganga inn á frjálsan gerðardóm, ef það mætti leysa málið á nokkurnveginn viðunandi hátt.“

Af þessu er það greinilegt, að stj. fél. fann sig til neydda, af því að hún taldi vist. að settur yrði lögþvingaður dómur hvort sem væri. Ég held því, að sýnilegt sé, hvernig hér er í pottinn búið. Stýrimennirnir hafa þótzt finna inn á það, að stj. Eimskipafél. óskaði eftir gerðardómi. Nú var loks komið samkomulag milli aðilja um frjálsan gerðardóm, en Eimskipafél. vildi ekki fallast á þá kröfu, að í gerðardómnum væri skuldbinding um, að aðiljar yrðu ekki látnir gjalda þátttöku sinnar í verkfallinu. Málið er látið stranda á þessu til þess að knýja fram gerðardóm. Það er gefið mál, að slíkur ágreiningur sem þetta gat varla leitt til annars. Hér eru öfl að verki, sem vilja fleiri og fleiri fordæmi fyrir gerðardómi, svo að þeir geti smátt og smátt orðið að fastri reglu. Er þar kominn fram spádómur okkar kommúnista í vetur í togaradeilunni. Fordæmið skapar nýjar kröfur, og afleiðingin verður gerðardómur í hverri deilu, sem nokkuð kveður að. Á þessu þingi hafa komið fram 2 frv. slík. Það gæti þar að komið, að það yrði of mikið verk fyrir Alþ. að vera stöðugt að afgreiða slík l. Þá liggur ekki annað fyrir en að lögþvingaður vinnudómur verði að fastri stofnun. Vinnulöggjöfin, sem verið er að samþ., yrði rammi utan um slíkan gerðardóm, sem m. a. kveður á um refsiákvæðin og þannig yrði verkfallsrétturinn afnuminn með öllu. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar að mínum dómi að því að flýta fyrir slíkri þróun. Aðra þýðingu hefir það ekki. Það er alveg óþarft til þess að leysa þá farmannadeilu, sem hér er um að ræða. Til þess að leysa hana, er nóg að ákveða með l., að aðiljar verði ekki látnir gjalda þátttöku sinnar, því að það eitt er ágreiningsatriðið og annað ekki. Að öðru leyti hafa aðiljar komið sér saman. Þess vegna flyt ég mínar brtt., sem munu koma til atkv. við 2. umr. Brtt. mín er um það, að í staðinn fyrir 1.-7. gr. frv. komi ein gr. um, að hvorugur aðilja í vinnudeilunni skuli láta hinn gjalda þátttöku sinnar. 8. gr. frv. yrði svo 2. gr., um, að l. öðlist gildi nú þegar. Þar með er málið leyst, án þess að til neinna óyndisúrræða þurfi að koma.