05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Ólafur Thors:

Ég get fyrir mitt leyti orðið við tilmælum hæstv. forsrh. um að gera ekkert sérstakt til þess, að umr. lengist um málið. Ég er frv. fylgjandi, og við sjálfstæðismenn á þingi erum það allir.

Hæstv. forsrh. kvað svo á, að aðiljar þessa máls hafi ekki getað komið sér saman um orðalag þeirrar hugsunar, að niður skyldu falla sakir, eftir að deilan að öllu leyti hefði verið lögð í gerð. Þetta er rétt. Ég lít svo á, að stjórn Eimskipafélags Íslands hafi ekki getað og heldur ekki haft rétt til þess að taka fyrir sitt leyti ákvörðun um, að stýrimenn skyldu njóta eftirlauna, eins og þeim er ætlað samkvæmt reglugerð fyrir eftirlaunasjóð fyrir Eimskipafélag Íslands, 10. og 14. gr. Samkvæmt þessum gr. mun stj. félagsins ekki hafa vald til þess að taka endanlega ákvörðun um þetta. Ég læt liggja á milli hluta, hvort löggjafinn getur sett ákvæði um þetta atriði. Það verður þá á sínum tíma deilumál á milli dómstólanna og aðalfundar Eimskipafélagsins, ef félagið gerir nokkuð til þess að halda fram þeim rétti, sem það kann að hafa, til þess að svipta stýrimenn, sem tekið hafa þátt í deilunni, eftirlaunum. Ég hefi enga trú á því, að til þess verði nein tilraun gerð.

Ég hafði ætlað að bera fram brtt. við 1. gr. frv., til þess að skýrt kæmi fram, hvernig ég liti á málið. Ég er þeirrar skoðunar, að stjórn Eimskipafélagsins og stjórn skipaútgerðar ríkisins, eða framkvæmdarstjóri hennar, hafi verið búnir að aðhyllast það, að sakir skyldu niður falla, að svo miklu leyti sem það væri á valdi þessara aðilja. Ég hafði ætlað mér að bera þessa brtt. fram. En eftir að ég átti tal við hæstv. forsrh. sé ég ekki ástæðu til þess. Hann ætlar, að í þessu orðalagi I. gr. felist sú hugsun, að sakir falli niður millí deiluaðilja, eftir að sætt hefir verið gerð í málinu. Ég vil einnig, að svo verði, þó að ég, með þessum fyrirvara, sem ég hefi tekið fram viðvíkjandi 11). og 14. gr. reglugerðar um eftirlaunasjóð E. Í. bendi á, að draga má það kannske í efa, að löggjafinn geti gert ákvarðanir sínar um þetta.

Ég vil, að það komi skýrt og ákveðið fram, enda þótt ég ætlist til, að stýrimenn njóti sama réttar hjá Eimskipafélaginu og meðaðiljum þess í deilunni eins eftir sem áður að deilan hófst og missi ekki neins í vegna deilunnar, — ég vildi láta það koma alveg skýrt fram, að stýrimenn öðluðust ekki neina nýja vernd með orðalagi þessarar gr. Til þess að skýra, hvað fyrir mér vakir, þá segi ég, að ég gæti hugsað mér, að einhver ágreiningur risi um það, hvort þessi eða hinn stýrimaðurinn skyldi ganga fyrir um skipstjórastöðu, svo að ég nefndi eitthvert dæmi, eða að á einhverju skipinu yrði ósamkomulag á milli skipst jóra og stýrimanna, svo að hentugt þætti að flytja manninn á milli skipa, og þá tel ég, að útgerðarfyrirtækið ætti að hafa óbundnar hendur til þess. Slíkt gæti komið fyrir.

Ég ætla að geta um það, að mér hefði þótt viðfelldnara, að í 1. gr. frv. hefði ekki verið ákveðið, að í gerð yrði lögð deila milli Stýrimannafélags Íslands og Eimskipafélags Reykjavíkur og Eimskipafélagsins Ísafoldar, af þeim ástæðum, að sáttasemjari hefir ekki fjallað um þá deilu, en allshn. beggja d. hafa fjallað um þetta mál og ekki þótt ástæða til að breyta þessu, og mun ég því heldur ekki flyt ja brtt. um það.