05.05.1938
Neðri deild: 63. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

136. mál, gerðardómur í farmannakaupdeilu

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi borið fram brtt., sem á að koma til atkvgr. við 2. umr., en með leyfi hæstv. forseta ætla ég að tala um hana í sambandi við málið í heild.

Eins og þetta nál. liggur fyrir, hafa báðir deiluaðiljar komið sér saman um að hafa frjálsan gerðardóm um sin deilumál, en samkomulagið slitnaði á því einu, að Eimskipafélag Íslands hafði ekki viljað lofa því, að stýrimennirnir yrðu ekki látnir gjalda þátttöku sinnar í deilunni.

Hv. þm. G.-K. kom með nokkrar ástæður fyrir því. að hann teldi félagsstj. ekki einfæra til að dæma um það, hvort stýrimennirnir hefðu glatað eftirlaunarétti sínum, og eftir 10. gr. reglug. um eftirlaunasjóð félagsins væri hægt að lita svo á, að henni mætti ekki breyta nema með samþykki aðalfundar. Í 10. gr. er aðeins talað um það, ef maður er riðinn við athafnir eða fyrirtæki, sem að áliti félagsstj. komi í bága við hagsmuni félagsins, eða hefst eitthvað það að af ásettu ráði, sem félagsstj. telur skaða starfsemi félagsins.

Ég lít svo á að það komi ekki til nokkurra mála, að þetta falli undir það, að stýrimennirnir hafi unnið á móti hagsmunum félagsins, þó að þeir geri ákveðnar kröfur um kaup og kjör og fái framgengt sínum kröfum, heldur sé hér átt við allt önnur atvik.

Í þeim vinnudeilum. sem ég hefi tekið þátt í, og þær eru margar, hefir venjulega verið sett það skilyrði, a. m. k. hjá verkamannafélögunum, að menn yrðu ekki á neinn hátt látnir gjalda þátttöku sinnar í deilunni. Og þetta hefir gengið orðalaust. m. a. við Eimskipafélag Íslands. En ég man eftir einu dæmi, þar sem þetta gekk ekki. Það var í hinni svonefndu garnadeilu, og þá ákvað félagið, sem var hinsvegar, verkamannafélagið Dagsbrún, að setja af sinni hálfu það skilyrði fram, að ef tekið yrði að ýfast við þeim mönnum, sem hefðu tekið þátt í deilunni, þá tæki félagið deiluna upp aftur. Þetta skilyrði hefði stýrimannafélagið að sjálfsögðu getað sett við Eimskipafélagið, og kann að vera, að þá hefði ekki þurft að gripa til þessara ráðstafana. Ég skal þó ekkert um bað deila, en hvernig sem ágreiningur liggur fyrir, þá er deilan í raun og veru ekki um gerðardóminn, því að um hann hafa aðiljar verið ásáttir, heldur hvort gilda skuli þessi venjulega regla, þegar sættir takast í deilu, að aðili sé ekki látinn gjalda þátttöku sinnar í deilunni.

Ef stýrimennirnir vildu ekki taka þann kostinn, sem tekinn var upp í sambandi við þá vinnudeilu, sem Dagsbrún átti í, þá fyndist mér eðlilegt að setja löggjöf um ekkert annað en það, að gamla venjan, sem gilt hefir á milli verkamannafélaga og atvinnurekenda, skuli einnig gilda hér. Hinsvegar finnst mér ekki vera nein ástæða til að setja f. um sjálfan gerðardóminn, ef hægt er að leysa sjálft deiluatriðið.

Þess vegna gengur mín brtt. eingöngu út á það, að hvorugur aðili láti hinn gjalda þátttöku sinnar í deilunni. Það er ekki deilt um annað, og ég álít ómögulegt, að Eimskipafélagið geti gengið frá því að leggja málið í gerð.

Ég lít svo á, að það sé ekki rétt af löggjafarvaldinu að taka að sér að setja löggjöf um meira en brtt. mín felur í sér, ekki sízt þegar sett hafa verið l. á þessu þingi, sem hafa sætt mótmælum frá mjög fjölmennri stétt, sjómannastéttinni; og það lítur mjög mikið út fyrir, að þetta deiluefni sé spunnið upp af stj. Eimskipafélags Íslands til þess að koma á stað einni löggjöfinni enn um gerðardóm til þess að festa það í meðvitund manna, að þessi mál eigi að ákveða með gerðardómi.

Ég get þess vegna ekki greitt frv. atkv., eins og það liggur fyrir, en ber þessa brtt. fram og álit hana vera nægilega til þess að leysa málið.