30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

118. mál, sælgætisvörur blandaðar fisklýsi og jurtaefnum

*Garðar Þorsteinsson:

Það er eftirtektarvert. að bæði á þessu og á siðasta þingi hafa komið fram ekki svo fá frv. nm að veita einstökum mönnum eða fyrirtækjum einkaleyfi til útflutnings á ýmsum vörum. Eitt þeirra er frv. það, sem hér liggur fyrir. Nú skyldi maður ætla, að í grg. frv. kæmi fram sérstakar ástæður til þess, að veita skuli slík einkaleyfi. En svo er þó varla. Ég held, að það sé almennt varhugavert að gera mikið að því að veita einstökum mönnum og firmum slík einkaleyfi. Í þessu máli liggja engar upplýsingar fyrir. Það segir í grg., að erlendis séu framleiddar slíkar vörur og auglýstar með því, að þær séu blandaðar íslenzkum efnum. Það liggja engar nánari upplýsingar fyrir um, að svo sé. En þó svo væri. er vafasamt, að hægt væri að koma í veg fyrir það, þó að firma hér heima væri veitt einkaleyfi. Ég fæ ekki heldur séð, að það væri svo hættulegt, ef hér væri um að ræða útflutningsvöru í stórum stíl, þó að fleiri en eitt firma hefðu rétt til að flytja slíka vöru út. Ég vil skýra frá því, að ég hefi fengið upplýsingar um það, sumpart á lögreglustöðinni og sumpart hjá einstökum mönnum, að þetta firma, sem hér er talað um, er alls ekki starfandi, heldur stendur á bak við einhver Þjóðverji með ekkert kapital. Ég vil því mælast til, að hæstv. forseti taki málið af dagskrá og hv. n. leiti nánari upplýsinga, því að það er ekki vansalaust fyrir Alþ. að veita einkaleyfi firma, sem er ekki til.