04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

92. mál, hreppstjóralaun og aukatekjur m. fl.

*Flm. (Thor Thors):

Þetta frv. er samhljóða till. milliþn., sem starfaði í launamálum fyrir nokkrum árum. Þær till. voru lagðar fyrir Alþingi 1935, og launamálan., sem þá starfaði á þingi, mælti með því, að þær yrðu samþ. Málið náði þá ekki fram að ganga og var flutt af nýju 1936, og fór á sömu leið. síðan hafa hreppstjórar víðsvegar af landinu skrifað þinginu og sótt um hækkun á launum sínum, enda eru þeirra launakjör langlélegust allra opinberra starfsmanna.

Hér er um smámál að ræða. Alls myndu þessar hækkanir, sem gert er ráð fyrir í frv., nema um 14000 kr. Þetta er ekki pólitískt mál, eins og sést á því, að það er flutt af mönnum úr öllum flokkum þingsins nema einum. Ég vænti þess, að málið fái góðar undirtektir, og að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.