10.05.1938
Efri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

89. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Ingvar Pálmason:

Ég get sagt það fyrir mína parta, að ég geri það ekki að neinu kappsmáli, hverjir varnaglar hér verði slegnir fyrir misnotkun á því, að varamaður taki sæti aðalmanns í þessari stjórn. En ég vil benda á það, að þessar brtt. ganga dálitið út á sitt hvor. Mín brtt. gengur út á það, að aðalmaður geti ekki notað tylliástæður til þess að láta varamann koma í staðinn fyrir sig. Hin brtt. gengur út á það, að meiri hl. stjórnar síldarverksmiðjanna geti ekki kvatt varamann til fundar á móti vilja aðalmanns. Ég legg ekki mikið upp úr þessum mun, því að ég hefi þá trú, að allir þessir varnaglar séu óþarfir. Ég get náttúrlega gengið með brtt. hv. 1. þm. Eyf. af þessari ástæðu. Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að draga mína brtt. til baka. Ég álít rétt, að d. velji um, hvora brtt. hún vill samþ. En ef þeim, sem hafa verið andstæðir frv. frá upphafi, fellur eitthvað betur í geð brtt. hv. 1. þm. Eyf., þá geri ég engan ágreining út af því.