19.04.1938
Neðri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

99. mál, iðnaðarnám

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Síðustu ummæli hv. 7. landsk. gáfu til kynna, að hann er mér sammála um þetta mál, það er að ráða bót á þeim agnúum, sem hafa sýnt sig á gildandi löggjöf um þetta efni. Í raun og veru nægir mér þessi játning hans og þarf ekki frekar við hann að tala um málið. Ég er honum þakklátur fyrir þessar undirtektir. Ég hefi hvorki farið fram á meira né minna en að ráða bót á þessum agnúum.

Mér þykir leiðinlegt, að hv. 7. landsk. skyldi ofurlítið víkja við mínum orðum, þegar hann var að tala um, að ég hefði sagt, að hér væri einkennilegt réttarfar. Með þeim orðum átti ég ekki við frekar í þessum málum, heldur ef slíkt réttarfar væri ríkjandi í dómsmálunum yfirleitt. Ég hélt ég hefði komizt þar svo skýrt að orði, að ekki þyrfti að valda misskilningi, en það kann að vera, að mér hafi þar mislukkazt.

Það er ekki nema gott um það að segja, ef aðiljar geta komið sér saman um þetta, en nú hefir það ekki orðið í fleiri en einni iðngrein, svo að málaferli hafa jafnvel risið út af þessum málum. Mér sýnist því ekki hyggilegt að slíkt ástand sé látið haldast. Finn ég að skoðanir okkar hv. 1. landsk. fara saman um þetta. Hann viðurkenndi, að ráða þyrfti bót á þessu, en var hinsvegar í efa um, með hvaða hætti það yrði bezt gert. Mér hefir ekki dottið í hug að segja: Svona á að ráða bót á þessu og allar aðrar leiðir eru ófærar. Verði bent á einhverjar aðrar færar leiðir, er ég ánægður, og skal ég með ánægju eiga tal um það við hv. 7. landsk., hvernig þetta megi takast.

Hv. 7. landsk. sagði, að ekki væri víst, þótt bót yrði ráðin á þessum agnúa, þá batnaði nokkuð samkomulagið milli sveina og meistara, þar sem þá á annað borð greindi á. Það má vel vera, en það tekur ekki til þessa máls, þótt deilur standi um önnur atriði. Það er þess vegna óþarft fyrir okkur að fjölyrða um það og með því færa málið út á víðara svið en það nær samkvæmt frv. Ég þarf ekki að segja mörg orð út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. Hann taldi, að þetta væri þvingunarlög og færði það sem ástæðu, að báðir aðiljar væru á móti þessari breyt. Heldur þessi hv. þm., að það væri nokkuð meira öryggi fyrir réttlæti málsins, að annar aðilinn væri með og hinn móti því. Ég álít, að ekki sé hyggilegt með lausn slíks máls sem þessa að biða eftir því, að það ástand skapist, að annarhvor aðilinn verði ánægður með þá lausn, sem fæst, því að þá kemur fram sú tilhneiging, að hvor aðilinn um sig vill ráða. Er ekkert að segja við því, ef vel er ráðið, en það er sagt, að maður sé blindur í sjálfs sín sök, og það er ekkert sérstakt, hvað áhrærir þessar stéttir. Það er svo með alla menn. Og við þurfum þess vegna ekkert að kippa okkur upp við það, ef okkur kynni að greina á, þá verður hvorugum okkar trúandi til þess að gefa óvilhallan úrskurð um eigin ágreining okkar. Að öllum eðlilegum hætti myndi verða kjörinn til þess óvilhallur maður, sem hefði það eitt sjónarmið, að úrskurða á sem réttlátastan hátt. Þannig hlýtur það alltaf að ganga til.

Hv. 5. þm. Reykv. falaði um, að það ætti að sparka sveinunum, þegar þeir hafa lokið sínu námi. Þetta er sagt alveg út í hött. Það er ekki rétt af þessum hv. þm. að gera þeim mönnum getsakir, sem kynnu að fara með þetta vald, ef frv. verður að lögum, að þeir hlytu að misbeita því. Maður hefir ekki leyfi til þess, fyrr en það hefir sýnt sig, að þeir kunni ekki með umboð sitt að fara.

Hann vildi telja, hv. 5. þm. Reykv., að þetta frv. væri ekki til að ráða bót á atvinnuleysinu. Það er mér líka ljóst. En er hann nú samt alveg viss um það, að ef iðnfélögin, sem hyggja í Reykjavíkurbæ, koma því í framkvæmd, sem þau hafa nú gert samþykkt um, að það hafi engin áhrif á atvinnu í iðnaði? Ég vildi nú biðja hv. þm. einmitt að kynna sér þessi mál ofurlitið betur, og síðan skulum við eiga tal saman um þau. Ég held, að hans niðurstaða hlyti að verða sú, ef það gengi fram, sem talað hefir verið um hér milli sumra iðnfélaganna viðvíkjandi byggingariðnaði í Reykjavíkurbæ, þá myndi aukast atvinnuleysi í iðngreinunum. Og af því að ég veit, að hv. 5. þm. Reykv. vill tala máli lítilmagnans og meinar það náttúrlega, þá er ég ekki öldungis viss um nema það komi mikið almenningi þessa bæjar við, að sú iðnstétt, sem vinnur að byggingu í bænum, komi ekki öllum sínum ráðum fram. Ég er býsna hræddur um það, að þegar almenningur ætti að greiða húsaleigu eftir þeim kaupgreiðslumáta við húsbyggingar, þá yrði hann óþægilega var við það gegnum húsaleiguna. Það er og vitaskuld gott og fagurt af hv. 5. þm. Reykv. að bera iðnstéttirnar og þeirra hag fyrir brjósti, en hann má ekki gleyma þeim, sem fyrir utan þær standa. Og það veit ég, að hann vill ekki heldur gera. Allar hans bollaleggingar um misnotkun í þessu efni eru alveg út í hött; hann getur ekkert um það staðhæft. En hann getur ekki annað en viðurkennt, að það hafi verið sýnt óréttlæti af hálfu sumra sveinafélaga nú siðan þessi nýja löggjöf var sett. Og þótt eitthvað kynni á því að bóla síðar meir, svo að ég víki að því, sem mér fannst skína í gegnum ræðu hv. 7. landsk., þá verður Alþingi ekki sakað um það, þó að slíkt kunni að koma fram. Ég geri nokkurn mun á því, hvort slíkt hátterni styðst við lagabókstaf eða engin lög eru fyrir slíkri framkomu manna, og það veit ég, að hv. 7. landsk. gerir líka höfuðmun á.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Ég hefi haldið mér við kjarnaatriði þessa máls, og lýk ég máli mínu nú. Óska ég, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til iðnn. og 2. umr.