30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Herra forseti ! Af þeim brtt, sem fram hafa komið, ætla ég sérstaklega að gera nál. iðnn. og brtt. á þskj. 377 að umræðuefni. Ég álít, að með brtt. iðnn., sem felast í nál., sé gerðar breyt. til bóta á frv., sérstaklega þar sem m. a. er ákveðið, að iðnaðarfulltrúarnir, hvernig sem þeir eru kosnir, skuli ekki geta raskað því samkomulagi, sem komizt hefir á milli sveina og meistara. Þar með er tryggt, að utanaðkomandi menn geti ekki tekið ráðin af þeim, sem í iðngreinunum starfa.

Brtt. á þskj. 377, frá hv. 7. landsk. og hv. þm. Ak., felur í sér afgerandi breyt. til bóta. Eins og kom fram við 1. umr. er stór galli á þessu frv., að valdið til þess að tilnefna iðnaðarfulltrúa skuli tekið úr höndum iðnaðarmanna og látið í hendur iðnn. Alþingis, sem fyrst og fremst er pólitísk stofnun. Í till. er farið fram á að breyta þessu á þann veg, að iðnaðarfulltrúarnir skuli skipaðir af atvmrh., einn samkv. tilnefningu Landsambands iðnaðarmanna, annar samkvæmt tilnefningu Iðnráðs Reykjavíkur og sá þriðji án tilnefningar. Ég álít, að þessi brtt. hafi afgerandi þýðingu fyrir framgang málsins, og á þennan hátt getur það orðið afgr. á viðunandi hátt.

Ég vildi aðeins lýsa því yfir, að ég mun standa með þessari brtt., og vona, að hún verði samþ.