09.05.1938
Efri deild: 69. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

99. mál, iðnaðarnám

*Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

N. gat ekki orðið samdóma um þetta mál. Hv. 11. landsk. klauf sig út úr, og mun hann gera grein fyrir sinni afstöðu. Málið er mjög kunnugt, og get ég verið fáorður um það.

Það, sem vakti fyrir okkur meiri hl., hv. þm. Hafnf. og mér, er að gera litla tilraun til að leysa lítið brot af þeim mikla vanda, sem iðnaðarmenn eru nú í, sem er í stuttu máli sá, að í skjóli iðulaganna hafa mörg iðnfélög hallazt að þeirri skoðun, að útiloka menn frá námi, og er það komið einna greinilegast fram í rafmagnsnámi í sambandi við þær stórkostlegu framkvæmdir á því sviði, sem fram hafa farið hér í Reykjavík og á Ísafirði, og þessi aðferð sveina og meistara, að nota sér rétt þann, sem þeir fengu með iðnlögunum, til að skera niður alla viðbót, hefir t. d. nú þegar haft þær afleiðingar, að í Iðnskólanum í Reykjavík hefir nemendum fækkað um einn þriðja síðustu missirin, eingöngu vegna þess, að iðnnemar eru ekki til. Í Vestmannaeyjum hefir kunnugur maður sagt mér, að væru t. d. 4 menn, sem hefðu leyfi til að halda á múrskeið, en allir aðrir, sem kunna að snerta á múrun sem daglaunavinnu, þeim er það óheimilt og geta átt á hættu, að þeim verði veitt aðför og þeim veittar þungar búsifjar af iðnaðarmönnunum.

Í rafmagnsiðninni er þetta svo, að þeir, sem l. samkvæmi mega vinna þar, njóta oft hvorki svefns né matar fyrir vaxandi þörf fyrir rafmagnsvinnu, og gerir það þeirra hlutskipti alveg óbærilegt. Nú er hægt samkvæmt sambandslögunum að kalla inn menn frá Danmörku, og það verður efalaust gert, og mun hafa verið gert nú þegar, því að það eru allháar tölur útlendinga í sumum iðngreinum, einkum mun Dönum hafa fjölgað í skjóli sambandslaganna. Á sama tíma er fjöldi ungra manna og kvenna, sem ganga iðjulaus og þurfa um fram allt að fá vinnu, en þeim er haldið frá því. Svo er annað í þessu, sem hefir komið illu blóði í fólkið. Ég veit um það hér í Reykjavík, þar sem ég þekki bezt til, að sjómenn og verkamenn segja: Það er opið aðstreymi til okkar, en aftur á móti mega börnin okkar ekki verða iðnaðarmenn. Þau eru útilokuð frá því. Verkamönnum og sjómönnum finnst þetta vera að verða einskonar stéttaskipting eins og í Indlandi, þar sem viss hópur manna er fyrir neðan hinar löglegu stéttir.

Sannast er bezt að segja, að á iðnlögnnum eru margir og stórir gallar, fleiri en þeir, sem hér er tekið á, og það er vist, að á næsta þingi verður að taka þá fyrir, ef ekki á að verða meiri skaði að. Ég fer ekki lengra út í það hér. Við höfum aðeins gert litla tilraun um að leggja eitt atriði undir óháðan dómstól, sem þjóðfélagið hefir sett, til að láta hann skera úr, hvort rétt sé að neita unglingunum um vinnu, af því að þeir, sem áður eru búnir að læra hana, vilja ekki láta þá fá vinnuna.

Hv. 11. landsk. kom með aðrar till. um að koma þessu þannig fyrir, að iðnfélögin töpuðu ekki valdi sínu, en ég held, að hann hljóti að sjá, að hér er annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Iðafélögin hafa misnotað þetta vald í stórum stíl á þann hátt, að þjóðfélagið getur ekki þolað það lengur. Líkt dæmi höfum við haft, þar sem Stýrimannafélagið, þessi fámenni hópur, er búið að sýna sinn mátt nokkra daga svo kröftuglega, að ég veit um eitt félag, sem hefir tapað fi0 þús. kr. í beinhörðum peningum þessa fáu daga, sem skipin hafa legið aðgerðarlaus. Svo mikið kostaði það, áður en stýrimennirnir gáfust upp á sínu eigin bragði og komu til þjóðfélagsins og sögðu: Bjargið okkur frá okkur sjálfum. Iðnaðarmenn eru ekki enn búnir að sjá þessa hættu, en þessi lagagrein lýtur í þá átt að bjarga iðnaðarmönnum frá þeim sjálfum og bjarga þjóðarhagsmununum frá því að verða að lúta fyrir þessum stéttarhagsmunum.

Við framsóknarmenn völdum eitt lítið atriði úr ágöllum iðnaðarl. sem tilraun til að sjá, hvernig hv. Alþ. tæki í hana. Þessi tilraun hefir gengið vel; menn með ábyrgðartilfinningu eru með henni, en kommúnistar eru á móti henni, eins og vera á. Aftur á móti er það leiðinlegt, að jafnmætur maður og hv. 11. landsk. skuli hafa glapizt af sinni góðu og dyggðum prýddu sósialistabraut inn á þessar villigötur. Ég er þess viss, að hann mundi vilja gera minningu þess hv. þm., sem þetta sæti átti, og allra manna var samningaliprastur, sem mestan sóma með því að athuga á ný gang þessa máls, áður en það er orðið of seint.

Ég hefi skýrt hér, að ekki er um neina endurskoðun iðnaðarl. að ræða, heldur einn af verstu stöðunum tekinn til athugunar til að vekja þjóðfélagið til vitundar um þá hættu, sem hér er á ferðum.