18.02.1938
Neðri deild: 3. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er orðinn siður, að þetta frv. gengur í gegn hvert þingið eftir annað. Það var sérstaklega 3. liðurinn í frv., sem ég gerði aths. við á síðasta þingi og mig langar til að ræða dálítið um hann aftur. Það er sem sé það ákvæði í „bandorminum“ að halda áfram að svipta byggingarsjóði í kaupstöðum og sveitum tekjum þeim, sem þeim voru upphaflega ætlaðar með tóbakseinkasölul., þegar þau voru sett. Það er nú að byrja 6. árið, sem þessir byggingarsjóðir verkamanna og bænda eru sviptir þeim tekjum að miklu leyti, sem ætlazt var til, að þeir fengju, sem sé tekjunum af tóbakseinkasölunni. Það var ætlazt til, að þeir fengju 600 þús. kr. samkv. upprunalegu l., 300 þús. kr. til byggingarsjóða í kaupstöðum og 300 þús. kr. til byggingar- og landnámssjóðs. Að mínu álíti er það varhugavert fyrir þingið að samþ. ár eftir ár að afnema þau beztu l., sem Alþ. hefir samþ. fyrir verkamenn í landinu. Þetta ákvæði í frv., sem ég gat um, hefir orðið til þess að draga mjög úr því, að hægt væri að gera eins mikið að byggingu verkamannabústaða eins og ella. Þetta hefir auk þess mjög slæm áhrif á trú manna á lýðræðið. Þegar verkamannasamtökin fá í gegn l. með sérstakri samvinnu, þá hefir það áreiðanlega ill áhrif á trú manna á lýðræðið, þegar menn eru með öðrum l. sviptir ávöxtunum af þessum gömlu lögum.

Ég álít varhugavert fyrir þingið að samþ. þetta, og vil alvarlega mælast til þess, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, rannsaki ýtarlega, hvort ekki sé hægt að gera breyt. á þessu til batnaðar.

Ég vil ennfremur koma fram með fyrirspurn til stjórnarflokkanna, hvort þeir hafi samið um í sambandi við það, að þetta frv. eigi að ganga fram, á hvern hátt byggingarsjóði verkamannabústaða verði bætt upp það tjón, sem hann bíður við þetta. Undanfarið hefir það verið svo, eftir þeim upplýsingum, sem komu fram á síðasta þingi, að ríkisstj. hefir hlutazt til um, að góð lán fengjust til verkamannabústaða í staðinn fyrir það fé, sem þeir eru sviptir með samþykkt þessara l. Ég man ekki, hvort það hafa verið 100 þús. kr. eða 150 þús. kr., í staðinn fyrir 300 þús. kr., sem áttu að fara til þeirra eftir upprunalegu l. Ég álit, að það væri heppilegt í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að stjórnarflokkarnir upplýstu, á hvern hátt séð yrði fyrir þessu að þessu sinni. Sérstaklega á þetta við um Reykjavík, þar sem mest hefir verið gert að byggingu verkamannabústaða undanfarin ár. Eftir úrslit síðustu bæjarstjórnarkosninga þar er alveg útséð um það, að af hálfu Rvíkurbæjar verði nokkuð gert til að bæta úr húsvandræðunum þar, þar sem sá flokkur náði meiri hl., sem telur húsnæðisvandræðin í bænum sér óviðkomandi og álítur það ekki á sinni stefnuskrá að bæta úr þeirri þörf manna. Þetta má bezt sjá á því, að síðan l. um kjallaraíbúðir voru sett, þá hafa þau verið fótum troðin og einskisvirt af meiri hl. bæjarstj. í Rvík. Þegar þau voru sett, voru 300 kjallaraíbúðir í bænum, en nú eru þær 1100. Þær hafa því margfaldazt í stað þess að fækka.

Meðan bæjarstjórn Rvíkur gerir ekkert til þess að bæta úr húsnæðisvandræðum fólksins, þá getur þingið ekki látið hjá líða, að láta sig það nokkru skipta. Það er því óskynsamlegt af þinginu að halda áfram að setja ákvæði, sem nema úr gildi l., sem hjálpa til að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Ég vil því leyfa mér að koma með fyrirspurn til stjórnarflokkanna um það, á hvern hátt eigi að bæta byggingarsjóðum kaupstaða og sveita það tjón, sem þeir bíða við áframhaldandi samþykkt þessa frv. um bráðabirgðabreyt. nokkurra l., sem hér liggur fyrir.