23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla ekki beinlínis að skipta mér af þessum umr. á milli þeirra hv. 5. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., að öðru leyti en því, að það var ýmislegt í ræðu hv. 2. þm. Reykv., sem gefur mér tilefni til þess að lýsa minni skoðun. Hann gat þess fyrst og fremst, að hér í bænum væri árlega byggt fyrir 4–6 millj. kr., og þess vegna væri hluti Reykjavíkur af þessum 300 þús. kr. tiltölulega lítil viðbót. Ég get fallizt á, að þótt þetta framlag yrði látið renna til verkamannabústaðanna, þá er mjög fjarri því, að byggingarþörfinni sé fullnægt, því að það yrði kringum 1/6 þess fjár, sem þyrfti árlega að byggja verkamannabústaði fyrir í Reykjavík eftir þeim kröfum, sem menn gera til Byggingarfélags alþýðu. Hinsvegar verður að geta þess, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, að ástandið í þessum efnum er nokkuð öðruvísi nú en fyrir nokkrum árum. Það er ekki annað fyrirsjáanlegt en að öll byggingarvinna leggist niður og menn verði hundruðum saman atvinnulausir. Menn vita, að það verður engin vinna við Sogið og engin vissa fyrir vinnu við hitaveituna, svo að það má yfirleitt búast við neyðarástandi í Reykjavík, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir. Eftir því, sem ég veit bezt, hefir ekki verið sótt um byggingarleyfi fyrir meir en 2–3 húsum fyrir utan viðgerðir á nokkrum húsum. Svo að sú upphæð, sem byggt verður fyrir í sumar, verður mjög lítill hluti af þessum 4–6 millj. kr., en þess meiri þörf er á því, að þær byggingar, sem reistar verða, séu hagkvæmar og fyrir þann hluta fólksins, sem erfiðast á með að útvega sér góðar íbúðir, og eftir l. um verkamannahústaði mega félagsmenn ekki hafa meira en 4000 kr. árstekjur að meðaltali 3 síðustu árin, að viðbættum 300 kr. fyrir hvern ómaga, svo að það er 4000–5000 kr. hámark.

Það er algerlega rangt hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann segir, að þær byggingar, sem Byggingarfélag alþýðu hefir látið reisa með lánum úr byggingarsjóði, séu tilkomnar sem gjöf til meðlima félagsins, því að þeir greiða það, sem þetta kostar byggingarfélagið, en það tekur lán úr byggingarsjóði með þeim kjörum, að sjóðurinn tapar engu við það, því að hann hefir hingað til fengið lán sín með góðum kjörum, að hann hefir ekki skaðazt, þó að hann hafi lánað til byggingarfélagsins með þessum vöxtum. Þar að auki hefir sjóðurinn sitt eigið fé, sem hann þarf ekki að reikna sér hærri vexti af en hann fær af lánum til byggingarfélagsins. Þannig vex sjóðurinn bæði með tillögum frá bæjarsjóði og ríkissjóði og einnig vegna sinna eigin vaxta, svo að því fer fjarri, að hér sé um einhverjar gjafir að ræða. Hér kemur tvennt til greina; í fyrsta lagi, að hvað ábyrgðirnar snertir, þá ættu byggingarnar sjálfar fyrst og fremst, sem eru ódýrar og hentugar, að vera nægileg trygging, og svo er ábyrgð bæjarsjóðs og þar að auki er ábyrgð ríkissjóðs á öllum lánunum. Af þessum ástæðum hafa fengizt mjög ódýr lán. Í öðru lagi hefir verið byggt í stórum stíl, þannig að þessar íbúðir eru miklu ódýrari heldur en aðrar byggingar hér í bænum. Þegar byggingar eru takmarkaðar, þá er eðlilegt, að menn séu því mótfallnir, að haldið sé áfram að takmarka og eyðileggja þetta byggingarfyrirkomulag, sem hefir komið alþýðu þessa bæjar að miklu gagni. Ég get að vísu, eins og ég gat um áðan, fallizt á það með hv. 2. þm. Reykv., að þessi viðbótarstyrkur mundi ekki leysa þetta spursmál, en hann mundi hjálpa nokkuð á leið. Lausnin fæst ekki fyrr en byggingarsjóður getur fengið betri og meiri lán, enda var upphaflega ætlazt til þess, að styrkir frá því opinbera yrðu aðallega til þess að taka við halla, sem yrði af dýrari lánum, en það hefir hingað til ekki orðið.

Ég veit, að yfirleitt vekja mál Reykjavíkurbæjar ekki mikinn áhuga hér í þinginu, eins og það er saman sett, en íbúar Reykjavíkur vilja líka hafa sinn rétt að einhverju leyti, og ef þingið skilur nú við þessi mál án þess að gera neinar ráðstafanir í þessu efni, þá verður það því miður til þess, að stj. þarf að grípa til sérstakra ráðstafana áður en næsta þing kemur saman.