21.02.1938
Neðri deild: 5. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Frv. þetta er shlj. frv., er ég flutti á síðara þinginu 1937. Efni þess er að undanskilja skattskyldum tekjum skipverja fæði og húsnæði, er þeir njóta ókeypis í skiprúmi. Svo er fyrir mælt í l. um tekjuskatt, að frá tekjum manna skuli draga kostnað, er þeir hafa af því afla sér teknanna. Nú er það svo, að þótt fæði og húsnæði séu mikil hlunnindi fyrir þá, sem vinna í landi, þá háttar þessu öðruvísi um menn, sem vinna á sjó. Vegna fjarveru sinnar missa þeir af mörgu tækifæri til að sjá heimili sínu fyrir ýmsum óbeinum hagsmunum og standa því verr að vígi að þessu leyti en hinir. Ég held, að þessi óþægindi vegi fyllilega upp á móti þeim hag, sem skipverjum er veittur með ókeypis fæði. Fyrir ríkið nemur þetta ekki hárri upphæð. En það er skiljanlegt, að eftir því, sem tekjur manna rýrna, er dvelja að staðaldri á skipum, því erfiðara verður þeim að greiða skattinn.

Ég gerði grein fyrir þessu máli við framsögu á síðasta þingi og ætla því ekki að hafa lengri framsöguræðu að þessu sinni, en leyfi mér að óska, að málinu verði vísað til fjhn.