02.05.1938
Neðri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Sigurður Kristjánsson:

Ég ætla aðeins að gera stutta aths. Mér skildist á hæstv. atvmrh., að hann vildi ekki vinna að því, að samkomulag næðist um, að þetta mál væri athugað nánar. Mér finnst þetta vera nokkuð mikill þvergirðingsháttur, en það má vel vera af því, að ég var búinn að kalla fast eftir því hjá n. Vil ég þá hafa litla tillátssemi, þó ég hefði aðeins leyfi til að gera stutta aths., og segja, að samanburður hans á sjómönnum og vinnukonum er alls ekki réttur. Við höfum sjálfsagt báðir haft vinnukonur. Ég veit ekki, hvaða reglur hæstv. atvmrh. hefir við sitt vinnufólk, og hvort vinnukonur hjá honum þurfa að borga fyllilega allt, sem þær fá til munns og maga, en ég hygg, að yfirleitt fái vinnufólk marga hluti endurgjaldslitið, og það geti jafnvel komið fyrir, að það fái meðgjafir með ýmsum fríðindum. A. m. k. er það fjarri öllu lagi að bera saman þau hlunnindi, er þeir menn hafa, sem taka laun sín á landi og á lögheimili sínu, og þau hlunnindi, er þeir menn fá, sem eru hálfgerðir útlagar á sjónum.

Um efnisatriði þessa frv. ætla ég ekki að deila. Ég hefi tekið fram þá hluti, sem mestu máli skipta. Það er í fyrsta lagi, hvaða tekjur felast í fríu fæði. Í öðru lagi ber að taka tillit til þess, hve mörg óþægindi fyrir heimili manna fylgja þeirri atvinnu, sem menn verða að stunda utan heimilis, og af slíku leiðir m. a. aukna eyðslu. Í þriðja lagi ber að athuga, hve sú atvinna er miklu áhættusamari en hin, sem er stunduð á landi. Henni fylgir oft allmiklu meiri líkamleg áreynsla en atvinnu annara manna.

Að þessu öllu athuguðu hníga þung rök að því, að réttlátt er að samþ. þetta frv. Hinsvegar hefi ekki heyrt nein veigamikil rök, er hnekkja þessu. Ég ætla ekki að endurtaka þetta eða færa fram nýjar ástæður fyrir þessu frv., en ég legg áherzlu á, að frv. fái að fara til 3. umr., og á þeim tíma má athuga, hvort ekki muni vera um einhver málalok að ræða, sem allir gætu sætt sig við.