05.05.1938
Neðri deild: 62. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að leggja út í nánari kappræður um þetta mál. Það er ekki þannig vaxið, þó að það kannske sé ekki alveg eins smátt eins og mönnum kann að lítast við fyrstu skoðun. Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þetta væri sérstakt fyrir sjómenn, vegna þess að aðrir þeir, sem svipaðra hlunninda nytu, væru á sínum heimilum. Svo þarf alls ekki að vera. Það er svo um hér um bil alla, sem hafa ókeypis fæði sem hluta af kaupgjaldi, að þeir eru við störf utan síns eiginlega heimilis, en ekki sjómenn einir. Tökum t. d. kaupavinnu, og marga aðra hliðstæða starfsemi víðsvegar um landið mætti nefna. Ef ætti að láta menn hafa sérstaka ívilnun um skatt vegna þess. að þeir þurfi að afla tekna fjarri heimilum sínum, þá ættu vegavinnumenn og síldarvinnumenn t. d., sem dvelja fjarri heimilum sínum, þótt þeir ekki fái frítt fæði. að fá sérstakan frádrátt fyrir það. Þá eru og símamenn. En það er svo um slíka menn yfirleitt, þótt þeir dvelji fjarri sínum heimilum, að í mesta lagi er tekinn til greina ferðakostnaður á vinnustöð, en alls ekki óþægindi, sem af slíkri fjarvist kann að stafa. Það er ekki hægt að brjóta þá meginreglu, sem skattalöggjöfin hvílir á, með því að samþ. þetta frv., en meginreglan er sú, að það eru skattlagðar allar tekjur, hvernig sem þeirra er aflað. Og það er ómögulegt að slíta úr samhengi eina stétt og leyfa henni frádrátt og skatthlunnindi, sem önnur hefir ekki. Hv. 6. þm. Reykv. blandaði því inn í, sem kemur ekki þessu máli við, að í sveitum fengju menn að draga frá kostnað við þjónustufólk sitt, en ekki í kaupstöðum. Þetta er ekki alls kostar rétt. Það er ekki gert ráð fyrir því, að menn dragi frá kostnað við annað fólk í sveit en það, sem vinnur að framleiðslustarfsemi. — ekki það fólk, sem vinnur að þeim helmilisverkum, sem menn kosta þjónustufólk til í kaupstöðum. En því miður eru fæstir bændur svo efnum búnir, að þeir geti kostað sérstaklega miklu til utanaðkomandi hjálpar við sína innanhússtarfsemi. Það er þess vegna ekkert ósamræmi í þessari framkvæmd skattalaganna.

Annars vildi ég segja það, að mér finnst koma fram í þessu máli og ýmsum fleiri í þinginu, að einstakir þm. beri fram mál til að sýna það, hvað þeim sé annt um einhverjar vissar stéttir og hópa af mönnum, og séu miklir forsvarsmenn þeirra. Það væri t. d. ekkert ósennilegt úr þessu, að einhver þm. færi af stað með sérstakt frv. til þess að gera sig vinsælan hjá starfsstúlkum, um það, að þær þyrftu ekki að telja fram ókeypis fæði, þó að þær hafi það; og annar færi að bera fram sérstakt frv. um hlunnindi til handa kaupamönnum. Og þannig gæti þetta lengi gengið. Ég lít þannig á þess háttar eltingaleik, að hann sé ekki viðkunnanlegur. Mér finnst þetta mál þannig vaxið, að það ætti ekki að afgr. það, og þykist hafa fært fyrir því gild rök. Virðist mér hv. 6. þm. Reykv. ekki hafa haggað þar neinu með því, sem hann upplýsti áðan.