05.05.1938
Neðri deild: 62. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

6. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal fyrst víkja að því. sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri fyrsta meginregla skattalaganna, eins og hann orðaði það, að reikna mönnum allt til tekna, sem þeir öfluðu, á hvern hátt sem þess væri aflað. Þetta er auðvitað sú mesta firra og lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. hafi bara ekki lesið þessi lög. Það er meira að segja tekið fram í skattal., að það á að draga frá tekjum allt, sem maður ver til þess að afla þessara tekna. Og ég get sagt ráðh. það, að þegar ég var skattstjóri, gaf ég mönnum ýmsan frádrátt, t. d. læknum fyrir það að þurfa að hafa sérstaka skrifstofu og móttökuherbergi, — allt það, sem ég sá, að með sanni var framlagt annaðhvort í beinan kostnað eða til þæginda og tilheyrandi því að afla teknanna. Og þetta er í allveg fullu samræmi við skattalögin. Og hér kemur einmitt fram, að þessir menn sem verða að yfirgefa heimili sín til þess að afla teknanna, hafa sama fæðiskostnað fyrir heimilin í heild í raun og veru, fyrir utan mörg önnur óþægindi. Þess vegna er þetta alveg hliðstætt. En það er ekki að búast við, að menn, sem ekki hafa fyrir því einu sinni að lesa skattalögin, og hafa það eitt fyrir augum að krafsa saman í ríkissjóðinn með réttu og röngu eitthvert fé, — það er ekki að búast við, að þeir geti litið á þetta með sannsýni.

Það er ákaflega leiðinlegt að svara hv. 1. þm. Rang. Hann átti náttúrlega ekkert erindi í umr. nú, nema til þess að birta nýjar fjarstæður. Hann sagði, að þessi hlunnindi séu eingöngu fyrir þá menn, sem h:estar tekjur hefðu, svona 9 þús. kr. og þar um bil. Menn geta leyft sér að segja allskonar vitleysu, þar sem þeir eru hvort sem er búnir að flekka mál sitt með fjarstæðum áður, að þeir hafa ekki svo miklu að glata. En það má með auðveldum dæmum sýna fram á, hver endemis vitleysa slíkt er. Til þess að framfærslufrádráttur manns, sem hefir 9 þús. kr. tekjur, yrði svo mikill, að hann nyti einhvers af þessu, þá þyrfti frádráttur þessi að vera um 7 þús. kr. Hann nýtur þessa ekki, ef hann hefir 6500 kr. eða minna. Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. ætlar hverjum manni að eiga mörg börn, en það yrði laglegur hópur. Og ég verð að segja, að þótt hann hafi 9 þús. kr., ef hann ætti 10 börn og hefði allt það þjónustufólk, sem utan um það þarf, þá veitti honum ekki af því að fá þennan frádrátt frá þeim — segjum 2 þús. kr. —, sem þá eru skattskyldar. En hvort sem maður á að segja, að fari betur eða verr, þá hafa nú fáir slíka fjölskyldu. Svo að þetta er ekkert annað en vitleysa, sem ég og ímynda mér, að hv. þm. sé sjálfum ljóst, þegar hann segir það. Það eru ekki aðrir en þeir. sem hafa lágar tekjur, sem koma til með að njóta þessa; ég sleppi að tala um þá, sem eru skattfrjálsir með öllu vegna sinna lágu tekna.

Um leið og hv. þm. sagði, að þetta væri eingöngu fyrir hátekjumenn gert, vitnaði hann í deiluna, sem nú er á milli stýrimanna og skipaútgerðarinnar, og sé ég ekki eiginlega, hvað það kemur þessu máli við. Ég held, að 20–30 manna hópur standi í ákaflega litlu hlutfalli við stétt, sem telur, að ég ætla, nokkuð mörg þúsund manna. En úr því að hv. þm. blöskrar nú svo mikið þessi deila, því í ósköpunum styður hann ekki að því, að stjórn hans og flokkur leysi þessa deilu? Eru þeir að skemmta sér við hana, eða hvað? Það hefir hliðstæð deila verið leyst með 1. frá þessu þingi, sem nú situr.

Annars get ég sagt út af því, sem þessi hv. þm. og einnig hæstv. fjmrh. sagði. að þetta væri dekur við einstakar stéttir, að mér skildist, og ennfremur yfirboð, sem væri til minnkunar fyrir minni hl. n., hv. þm. G.-K., að mér blöskrar algerlega, að þessir kjósendaveiðarar, eins og hv. 1. þm. Rang. og hæstv. fjmrh., sem eru alltaf á eilífri „jagt“ með allskonar yfirboð og berjast þannig ásamt sínum stjórnarflokki upp á líf og dauða, að þeir skuli leyfa sér önnur eins firn og þau að brigzla mönnum, sem ætíð hafa neitað að taka þátt í þessum skrípaleik. Ég tel mér algerlega óskylt að svara slíkum brigzlum. Þetta er ekkert annað en vitleysa, en þeim fer verst að tala svona, sem eru alkunnir í sinni „agitation“ að vera með eilíf yfirboð og eilífar veiðar eftir stéttum og stéttaatkvæðum. Það hefir kannske verið tilgangurinn hjá hæstv. ráðh. að gefa sínum flokki áminningu um það, að hann væri ekki frjáls að því, hvernig hann greiddi atkv., en þeir skyldu gera svo vel að líta sér hægt í haflinu. En hann fór hóflegum orðum um málið. Tilgangur hv. 1. þm. Rang. er sýnilega sá, að koma æsingum inn í þetta mál, þannig að menn vildu ekki líta á það frá skynsamlegu sjónarmiði. En ég vænti þess, að málið sé orðið nægilega skýrt fyrir öllum þeim, sem vilja líta á það með sannýni, og læt þess vegna máli mínu lokið.