02.05.1938
Efri deild: 59. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er vegna prentvillu-púka, sem komizt hefir hér inn, að ég tek þessa brtt. mína aftur, sem nú liggur fyrir, en mun bera hér fram skrifl. brtt., sem hljóðar svo, að í 14. lið 1. gr. í stað „41/2%“ komi: 5%. Þá er í raun og veru búið að komast hjá þessu skeri, sem frv. hefir steytt á. Ég hefi afhent hæstv. forseta þessa brtt.

Með l. frá 1933 var ríkissjóði gert að skyldu að leggja fram fé jafnhátt eða hærra á móti sýsluvegasjóðsfénu. Þá var því þannig komið fyrir, að á móti því, sem lagt var fram af fé úr sýsluvegasjóðum fram yfir visst mark, 2%, væri lagt miklu nokkuð meira úr ríkissjóði heldur en sýsluvegasjóðsframlaginu næmi, jafnt á móti 2–4, og tvöfalt á móti 4–6%. Nú er þessu snáið þannig við, að þegar maður t. d. miðar við jarðafasteignir, þá er lagt fram á móti 41/2% gjaldi úr sýsluvegasjóði aðeins 3%, úr ríkissjóði. Áður var látið jafnmikið frá hvorum aðilja. Ef sýsluvegasjóður lagði fram allt að 5%, þá lagði ríkissjóður fram jafnmikið. En nú er ekki hægt að fá eins mikið frá ríkissjóði eins og frá sýsluvegasjóði. Hinsvegar fá þær sýslur, sem enga sýsluvegasjóðasamþykkt hafa, en gera vegi hjá sér, jafnt úr ríkissjóði og sýsluvegasjóður leggur fram. Þannig er þá útkoman orðin á þessu nú, að þær sýslur, sem helzt hafa keppt að vegagerðum hjá sér og gert hafa samþykkt um vegagerðir, eru um það verr settar heldur en þær sýslur, sem hafa látið leika lausu um stofn¬un og starfrækslu sýsluvegasjóðasamþykkta. Og ég geri ráð fyrir, ef það heldur áfram að vera þannig, þá upphefji sýslurnar sýsluvegasamþykktir sínar og það sæki í gamla horfið, sem er verra fyrir sýslurnar og ríkissjóð líka.

Það var byrjað á því á þinginn 1935 að færa niður þessar greiðslur ríkissjóðs, þannig að á árinu 1936 væru þær jafnar úr ríkissjóði og sýsluvegasjóði, allt upp í 55%. Í fyrra var farið enn lengra, og því er haldið nú. Þetta þarf að leiðrétta. Ég veit, að erfitt er fyrir ríkissjóðinn að greiða þetta fé. En það er líka tilfinnanlegt fyrir hann að láta af höndum annað eins gegn framlagi sýslufélaganna, og um það munu koma kröfur frá þeim, ef horfið verður að því ráði að samþ. þetta frv.