04.04.1938
Neðri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

39. mál, efnahagsreikningar

Þá ætla ég að víkja að tveimur atriðum í umsögn þeirri, sem tveir af bankastjórum Landsbankans hafa sent í sambandi við þetta frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er nú almennt viðurkennd regla, þar sem einstaklingsréttur og einkarekstur er viðurkenndur, að fjárhagsmálefni hvers og eins séu fyrst og fremst hans einkamál“.

Það er engu líkara en að þessir menn vilji gefa það í skyn, að svo framarlega sem þetta frv. verður að l., sé einkarekstrinum stofnað í hættu og eignarrétturinn muni verða afnuminn. En það, sem hér er um að ræða, er aðeins þetta, að tryggt verði, að þjóðin hafi sjálf einhvern rétt yfir sínum málum og sínu fé.

Ég er ekki fjarri því, að það sé hugmyndin hjá þessum bankastjórum, að í raun og veru sé Landsbankinn þeirra einkaeign, sem komi öðrum lítið við, a. m. k. virðist mér það liggja á bak við setningu eins og þessa: „Nú er ekkert við því að segja, að þeir, sem lánveitingum stjórna úr bönkum og sjóðum, og sem í mörgum tilfellum eru trúnaðarmenn hins opinbera, séu eftirliti háðir“. Það er eins og það sé einhver náð, að hið opinbera skuli mega hafa eftirlit með þessum mönnum. En sú reynsla, sem íslenzka þjóðin hefir haft af bankarekstri, er sannarlega ekki þannig, að vanþörf sé á því, að meira eftirlit verði haft þar framvegis en verið hefir á undanförnum áratugum, enda er það vitað, að í hvert skipti, sem því er hreyft, að gera það eftirlit strangara, þá er uppi fótur og fit og allt gert til að hindra það.

Þá er ennfremur talað um það í þessu áliti, að í Landsbankanum sé sérstök endurskoðunardeild, sem sé algerlega undir stjórn bankaráðsins. Það hefir sannarlega ekki veitt af þessu. og þrátt fyrir þetta virðist ganga erfiðlega að fá upplýst ýms dularfull fyrirbrigði, sem hafa gerzt í þessari stofnun. Mér finnst því fjarri því, að þessir herrar geti sett sig á háan hest, þegar sá flokkur, sem að þessu frv. stendur, fer fram á, að þjóðin fái að hafa meira eftirlit með því, hvernig lánveitingum bankanna er hagað. Bankarnir eru eign þjóðarinnar, sem hún á kröfu til að fá að vita, hvernig er stjórnað.

Hv. 8. landsk. minntist á það í lok ræðu sinnar, að það væri í raun og veru miklu eðlilegra af flm. að ráðast á stjórnir bankanna beinlínis og svipta bankastjórana völdum. Ég get verið honum sammála um, að það væri engin vanþörf á því. Og það mætti fara að athuga það spursmál, hvort þjóðin hefir efni á því að láta þessa óstjórn í Landsbankanum viðgangast. En víst er um það, að fyrirkomulagið á lánveitingum frá þessari stofnun er meir en lítið rotið, ef hún þolir ekki, að efnahagsreikningar séu birtir. Og þeir, sem tala um birtingu efnahagsreikninga sem stórhættulega ráðstöfun, virðast a. m. k. sjálfir viðurkenna, að þeir viti um nokkuð mikla fjármálaspillingu þarna á bak við, sem hættulegt væri, að kæmi í ljós. Enda talaði hv. frsm. minni hl. ekki um annað heldur en einmitt þetta, hvað það myndi gert að miklu umtalsefni, ekki sízt í blöðunum, hvernig ástandið væri hjá þessum fyrirtækjum, sem samkvæmt frv. eiga að birta reikninga sína.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið, og mun ég standa með því og vona, að það nái samþykki.