05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2422)

42. mál, héraðsþing

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég held, að öllum þessum mótbárum hv. síðasta ræðumanns sé svarað í grg. frv., sem hann mun ekki hafa lesið nærri nógu vel. Hann endaði ræðu sína á því að segja, að sér væri ekki kunnugt um, að óskir hefðu komið fram um að setja lög um þetta efni. En eins og grg. ber með sér, hafa beinar óskir komið fram um þetta, og einmitt úr því kjördæmi, Norður-Ísafjarðarsýslu, sem við erum báðir manna kunnugastir í og hann minntist sérstaklega á í ræðu sinni í þessu sambandi. Á þing- og héraðsmálafundi Norður-Ísfirðinga, þar sem flokksmenn hv. þm. voru í yfirgnæfandi meiri bl., var einróma samþ. ályktun um þessháttar skipulag héraðsþinga, sem frv. fer fram á, og til þess ætlast af fyrirrennara mínum, að hann gengist fyrir því, að sett yrðu lög um þetta efni á Alþ., en honum láðist að gera. Þessi ályktun er prentuð orðrétt í grg. frv., og ef hv. 6. þm. Reykv. telur þörf á að leita sér frekari upplýsingar, getur hann með hægu móti fengið að vita, að farið er með rétt mál.

Það er alger misskilningur og fáránlegur misskilningur, að hér sé á nokkurn hátt verið að ráðast á fundafrelsi manna. Menn mega vitaskuld halda þingmálafundi alveg eins eftir sem áður, og héraðsmálafundi hið sama, og menn mega kjósa fulltrúa til þeirra funda alveg eins og áður. Það eina, sem þessi fyrirhuguðu lög eiga að miða að, er, að héraðsþ. — skynsamlega skipulögð með tilliti til lýðræðis, þ. e. skipuð fulltrúum, sem ætla má, að séu valdir í glöggu samræmi við fylgi stjórnmálaflokkanna í hlutaðeigandi kjördæmum — hafi nokkur sérréttindi, þannig, að ef Alþ. berast till. frá þeim, verði þær teknar til rækilegri yfirvegunar en till. frá öðrum þingmálafundum, sem til einskis slíks geta vitnað. Ég vil gera ráð fyrir því, að þegar hv. þm. hefir kynnt sér þetta betur, komist hann að annari og réttri niðurstöðu um efni frv., tilgang þess og verkanir, ef það nær að verða að lögum.

Það, sem kjördæmin utan kaupstaðanna vantar, og það, sem þm. þeirra kjördæma vantar mjög tilfinnanlega, er viðurkennd stofnun, sem þeir geti, einkum þegar um kjördæmamál er að ræða, almennt snúið sér til eins og kaupstaðarþm. til bæjarstjórnanna. Þetta er raunar aðalatriðið, sem vakir fyrir okkur, sem flytjum þetta mál. Að halda því fram, að hér sé engra úrbóta þörf, er aðeins vottur þess, að þeir, sem það gera, hafa ekki kynnt sér málið nógu vel. Ég mun svo ekki ræða málið frekar að þessu sinni.