05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2424)

42. mál, héraðsþing

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég álít, að hugmyndin að þessu frv. sé mjög góð. Það gengur svo til, að fyrir hverjar kosningar er afarmikið rætt við kjósendurna og þeim lofað, að þeir skuli hafa sem mest áhrif á þingið, þegar búið er að kjósa; og svo venjulega, þegar komið er á Alþingi, eru vandræði fyrir kjósendurna að hafa nokkur áhrif. Ég held þess vegna. að með þessum héraðsþingum væru skipulögð áhrif kjósenda á Alþingi betur en hingað til hefir verið, og þar með stórt spor stigið til aukins lýðræðis og til að tryggja það, að kjósendur geti verulega beitt sínum áhrifum gagnvart Alþingi. Ég álít þess vegna, að þessar aðaltill. séu góðar og þess maklegar, að þessi lög verði samþ. hér á Alþingi. Það kann vel að vera, að ýmislegt komi til athugunar, eins og hv. flm. var að tala um, og verður það vafalaust athugað í n. — Ég sé ekki ástæðu til annars en að lýsa ánægju yfir því, að frv. kom fram, og ég sé enga ástæðu til þess að vera að fetta fingur út í það, þótt verið sé að skipuleggja betur áhrif kjósenda. Ég get ekki séð, að sé verið að svipta þá neinum rétti, eins og þessir hv. tveir þm. töldu, að væri verið að. Það er svei mér hægt að halda þingmálafundi eftir sem áður. En við vitum, hvernig gengur með það að fá nokkuð verulegt fram með slíkum fundarsamþykktum, og þar að auki er afarlitið um það, að þingmálafundir séu yfirleitt haldnir. Viðvíkjandi því, sem síðasti ræðumaður var að lesa upp um þingmálafundina, þá held ég, að það megi þakka fyrir, á meðan ekki verður sagt um þingfundina, að þeir séu „fyrirlitningarinnar maklegastir“.