05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2426)

42. mál, héraðsþing

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Það er rétt — ég skal ennþá taka það fram, þótt ég hafi tekið það nægilega skilmerkilega fram áður í grg. —, að það er ég, sem hefi skrifað grg., og meðfim. mínir bera því enga ábyrgð á henni. Það, sem í grg. segir, áleit ég hinsvegar alveg saklaust og næstum óþarft að taka fram, svo almennt viðurkennt væri það, af öllum þm. a. m. k. Viðvíkjandi dóminum um þingmálafundina hefði hv. þm. Borgf. mátt taka það fram, þar sem það er nægilega ljóst af grg., að það eru ekki allir þingmálafundir frá fyrstu tíð, sem fá þennan vonda dóm. Ég tala um þingmálafundi þá, sem haldnir eru nú á hinum síðustu og verstu tímum, en eins og í grg. stendur, hafa þeir lítið orð á sér, og meðal annars fyrir þá sök, að þeir eru oftar en hitt boðaðir með stuttum fyrirvara af aðkomumönnum einhvers flokks, sem lýstur niður án þess að andstöðuflokkarnir viti, oft á fráleitasta tíma, og jafnvel á hinum ólíklegustu stöðum. Ég tala um, að meðferð mála á þingmálafundum sé oft þannig, að sneitt sé hjá stórmálum og fundartímanum eytt í hin ómerkilegustu mál. Síðan, þegar flestir eru e. t. v. á brottu, sé rokið til fundarsamþ., sem ekki er ótítt um, að verði að athlægi um allt land. — Hv. þm. talaði um, að þetta væri harður dómur um fólkið í landinu yfirleitt. En þetta er einmitt ekki dómur um fólkið í landinu yfirleitt. Fólkið í landinu virðir ekki þessa fundi. Það skopast að þeim, og bæði fólkið sjálft og þm. eru sem óðast að leggja þá niður. Leiðarþingin mega þannig heita alveg úr sögunni. Hv. þm. hefði, úr því að honum þykir það harður dómur um þingmálafundina, að þeir séu ómerkilegustu fundahöld í þessu landi, mátt nefna einhver fundahöld, sem eru ómerkilegri en þingmálafundirnir, eins og þeir eru flestir nú á dögum.

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, vil ég geta þess, að ég hefi allt aðra afstöðu til míns kjördæmis en hann virðist hafa til síns kjördæmis. Ég þarf að tala þar við fleiri menn en kjósendur mína. Ég skoða mig sem þm. kjördæmisins og vil vinna fyrir kjördæmið í heild; og það er svo fyrir þakkandi, að vel er hægt að ná samkomulagi í Norður-Ísafjarðarsýslu um hin og önnur mál í kjördæminu og fyrir kjördæmið í heild, án tillits til flokkaskiptingar. Mér er engan veginn nægjanlegt að boða kjósendum mínum fundarhald. Ég vil fá viðurkennda fulltrúa frá öllum flokkum og í sem réttustum hlutföllum til skrafs og ráðagerða, og ég finn mikla og brýna þörf fyrir það.

Það er auðvitað, að það verður ekki bæði sleppt og haldið, ef þessum héraðsþingum verða gefin aukin réttindi með því, að till. frá þeim og mál séu á Alþ. stórum betur athuguð en frá öðrum fundum; það kostar bæði vinnu og fyrirhöfn. En ég ætla, að það sé nokkuð orðum aukið, að frágangssök sé fyrir n. á Alþ. að leggja fram þá vinnu, sem það hefði í för með sér. Ég hugsa, að þessu verði þannig hagað, að starfsmaður hér við þingið taki fundargerðirnar frá héraðsþingunum, athugi ályktanirnar, flokki niður eftir málefnum og fjölriti síðan og afhendi hlutaðeigandi n. Þannig yrði þegar auðveldari aðgangur að till. frá héraðsþingunum heldur en þingmálafundagerðunum, sem liggja inni á lestrarsal. Náttúrlega er engin n. neydd til að gera meira úr þessum till. en henni gott þykir. Þær liggja aðeins á aðgengilegan hátt fyrir n. til athugunar.

Ég ætla, að það sé ekki eins fráleitt og hv. þm. V.-Húnv. þykir, hvernig héraðsþingin myndu skipast með tilliti til flokka, sem samvinnu hafa haft með sér við alþingiskosningar, eins og átti sér stað í kjördæmi hv. þm. Það má deila um það, hvort kjósa eigi fulltrúa á héraðsþing árlega, eða einu sinni fyrir allt kjörtímabilið, um leið og kosið er til Alþingis, og kjósa þá nægilega marga varamenn. Það ætti líka að vera hægðarleikur. En ef samkomulag er um það milli flokkanna, að hafa einn þm. í kjöri, þá ættu þeir sannarlega að geta komið sér saman um að hafa sameiginlegan lista með hæfilega mörgum mönnum frá hverjum flokki til héraðsþinga. En einnig án þess geri ég yfirleitt ráð fyrir því, að þar sem slík flokkasamvinna hefir einu sinni tekizt, verði viðleitni höfð við að skipa héraðsþingin á næsta kjörtímabili með sem fyllstu tilliti til flokkanna, eins og ætla má, að þeir eigi fylgi í kjördæminu.

Ég vil að lokum þakka fyrir það, að þetta frv. hefir vakið þá athygli, að hv. þm. hafa ekki talið það eftir sér að ræða um það. Geri ég ráð fyrir, að það miði til þess, að menn glöggvi sig betur á þessu máli. Ég þakka líka fyrir það, að allir hv. þm. eru sammála um að vísa málinu til n. Vænti ég, að þar verði það enn betur athugað og síðan afgr. þaðan, e. t. v. að einhverju leyti aðgengilegra en sumum hv. þm. finnst það nú í því formi, sem það er.