05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

42. mál, héraðsþing

*Jón Pálmason:

Af því að ég er einn af flm. þessa frv., þykir mér rétt að leggja fáein orð í belg, og það einkum vegna þess, að mér virðist, að sumir þeir, sem talað hafa um frv., byggi sína ályktun á misskilningi.

Ég skal byrja á því að minnast á það, sem að vísu hefir verið upplýst af hv. 1. flm. og hv. þm. Snæf., að grg. þessa frv. er skrifuð eftir á og eingöngu af hv. 1. flm., og þess vegna ekki að neinu leyti á ábyrgð okkar meðflm., enda býst ég við, að enginn okkar hluti séð hana.

En þá er það annað í þessu sambandi, og það er, að menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því, hver er aðaltilgangur þessa frv. Hann er sá, að ef á annað borð er komið á héraðsþingum í kjördæmunum, eins og nú hefir verið gert á nokkrum stöðum, þá sé á því föst skipun. Og ég verð að segja það, að ég er mjög ósammála flokksbróður mínum, hv. 6. þm. Reykv., að með þessu sé á nokkurn hátt verið að svipta kjósendurna rétti, því að hér er aðeins farið inn á þá leið að gera ráð fyrir því, að flokksfélögin í viðkomandi héruðum ákveði, hvað marga fulltrúa skuli vera af viðkomandi flokki hægt að senda á þessi héraðsþing úr hverjum hreppi, og sé farið með það alveg eftir því fylgi, sem viðkomandi flokkar hafa við næstu alþingiskosningar á undan.

Eins og hv. þm. Snæf. benti á, þá er hér aðeins um heimild að ræða, sem eðlilega kemur ekki til framkvæmda, nema viðkomandi héruð óski eftir, og verða það þá náttúrlega fyrst og fremst þau héruð, sem hafa verið að burðast með svona fulltrúafundi á undanförnum árum. — Það kemur óneitanlega afkáralega fyrir, þegar slík dæmi eiga sér stað eins og á þessum vetri á einum slíkum héraðsfundi, að viðkomandi nýkosinn þm. hafði aðeins einn fulltrúa af þeim 10–20, sem þar voru mættir. M. ö. o., allir hinir fulltrúarnir væru á móti þm., og hefðu þess vegna náttúrlega getað samþ. allskonar till., sem gersamlega væru andstæðar skoðun þessa þm., sem hafði verið kosinn réttri meirihlutakosningu.

Aðaltilgangur frv. og ástæðan til þess, að ég gerðist meðflm. þess, er að koma í veg fyrir, að svona dæmi geti átt sér stað, ef á annað borð er farið að koma á í héruðunum svona fulltrúafundum. Að þetta sé til þess að svipta menn réttindum til þess að halda fundi á annan hátt. svo sem landsmálafundi svokallaða og þingmálafundi, er fjarstæða, því að hver hv. þm. hefir það á valdi sínu og kjósendur líka, að halda fundi í héruðum á hvern hátt annan, sem þeim lízt, þrátt fyrir það, þótt þetta frv. væri samþ.

Hv. þm. V.-Húnv. var að tala um aðstæðurnar í hans eigin kjördæmi. þar sem Bændafl. og Sjálfstfl. höfðu samvinnu við síðustu kosningar, og að í slíkum héruðum gætu ákvæði frv. valdið misrétti milli flokka. En það er atriði, sem vitanlega mætti athuga, hvort ekki væri rétt að breyta frv. þannig, að í slíkum tilfellum væri eftir því hægt að hafa áframhaldandi samvinnu um kosningu fulltrúa á slíkt héraðsþing, sem hér er gert ráð fyrir, eins og við kosningar til Alþ. Annars er kjördæmi hv. þm. V.-Húnv., sem hann af eðlilegum ástæðum tók sem dæmi upp á samvinnu flokka við kosningar til Alþ., ekkert einsdæmi í því tilliti, því að í fjölda kjördæma víða um land var höfð kosningasamvinna milli Alþfl. og Framsfl. við síðustu alþingiskosningar. Og þetta frv. tekur alveg jafnt til þess eins og þeirrar kosningasamvinnu, sem átti sér stað í Vestur-Húnavatnssýslu. Þetta er atriði, sem mér þykir rétt, að komi til athugunar í þeirri n., sem fjallar um málið, því að það getur vitanlega alveg eins komið til mála, að það sé lagt á vald slíkra flokka, sem samvinnu hafa í kjördæmum um kosningar til Alþ., að hafa einnig samvinnu um kosningu fulltrúa á héraðsþing. (SkG: Það er ekki leyfilegt eftir frv.). Það getur vel komið til mála að breyta frv. í þessu efni, þannig að flokkar hafi um það frjálst val, hvort þeir hafi samvinnu um kosningar til héraðsþings eða þeir skipti sér til þeirra kosninga að alþingiskosningum loknum.

Ég fæ ekki séð, að það, sem hv. þm. sagði, að slík skipun, sem frv. gerir ráð fyrir, mundi valda töfum á þingstörfum. sé á rökum byggt. Ég fæ ekki séð, að till., sem kæmu frá slíkum héraðsþingum, gætu það frekar heldur en það, að þingmálafundargerðir drífa að með því skipulagi, sem á því hefir verið. Það gæti reyndar verið, að meira tillit yrði að taka til héraðsþingasamþykkta heldur en venjulegra fundargerða, ef þar kæmi mikið af till. um héraðsmál, sem allir stjórnmálaflokkar væru sammála um. Og eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, er það alls ekki ótítt, að í einu kjördæmi séu um héraðsmál allir flokkar sammála. Og það á meira að segja við um fleiri mál en héraðsmál. Í mínu kjördæmi er t. d. hver einasti kjósandi, af hvaða flokki sem er, þeirrar skoðunar, að það skipulag, sem nú er á launamálum í landinu, sé óviðunandi og eigi að breytast til stórra muna. Þar er ekki flokkaágreiningur um. Þannig er þetta um mörg mál. Og þegar menn úr ýmsum flokkum koma á fund og athuga í ró mál, sem fyrir liggja. eru mjög miklar líkur til, að þeir geti orðið sammála um, að það þurfi að breyta ýmsu því, sem ekki er hafandi í l. Á þann hátt ættu héraðsþingasamþykktir að geta haft meiri áhrif á löggafarþing þjóðarinnar heldur en fundargerðir, sem nú eru sendar Alþ. af þing- og héraðsmálafundum.

Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að eftir frv. væru utanflokkamenn gerðir réttlausir til áhrífa á héraðsþingum. Og að ég tel, að það geri ekki mikið til, er af því, að það er mjög litið til að slíkum mönnum í landinu. Ég held, að það kæmi ekki mikið að sök, þó að þeir fáu utanflokkamenn væru gerðir áhrifalausir á þessum héraðsþingum.

En viðvíkjandi því, að sagt hefir verið, að þetta frv. sé samið til þess að verða til þæginda þeim þm., sem eru fulltrúar fyrir kjördæmi úti á landi, en eru búsettir hér í Reykjavík, vil ég segja það, að við, sem flytjum þetta frv., erum 5 af 8 búsettir utan Rvíkur og flestir í okkar kjördæmum. Það er líka skoðun okkar flm. frv., sumra a. m. k., að hver þm. eigi helzt að vera búsettur í sínu kjördæmi.

Aðalatriðið, sem fyrir mér vakir með þessu frv., er, að þar, sem á annað borð er búið að koma á þeim hætti, að halda héraðsfundi að ýmsu leyti líka eða svipaða héraðsþingum, sem hér er gert ráð fyrir, þá sé það tryggt, að fulltrúatalan á þeim fundum sé nokkurnveginn í réttu hlutfalli við atkvæðatölu þeirra flokka, sem þar eru, og þá miðað við síðustu alþingiskosningar á undan hverju héraðsþingi. Og þó að sú hlutfallstala sé gildandi yfir kjörtímabilið; sé ég ekki ástæðu til að ætla, að það reki sig á.