12.04.1938
Efri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Um síðustu mánaðamót barst allshn. þetta frv. frá hæstv. dómsmrh. með tilmælum um, að n. flytti það. N. varð við þeim tilmælum, þar sem l., sem ákveða skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta, frá 1933, féllu úr gildi við síðustu áramót. N. leit því svo á, að sjálfsagður hlutur væri að taka þetta mál til athugunar á þessu þingi, og féllst á þá skoðun rn., að nauðsynlegt væri að setja l. um þetta efni. Jafnframt áskildi n. sér rétt til að bera brtt. fram.

Nú hefir n. milli 1. og 2. umr. athugað þetta mál nokkru nánar, farið yfir þau gögn, sem dómsmrn. lét fylgja frv., sem eru aðallega bréf frá sýslumönnum og bæjarfógetum, þar sem þeir bera sig upp undan því, að skrifstofufé þeirra sé allt of lítið. Til þess að kynnast þessu máli sem bezt óskaði n. eftir viðtali við endurskoðanda ríkissjóðs, Jón Guðmundsson, og leitaði hjá honum upplýsinga um málið. Varð hann fúslega við því og gaf n. ýmsar mjög rækilegar bendingar. Við samanburð á því skrifstofufé, sem sýslumenn og bæjarfógetar hafa fengið síðustu ár, virtist n. koma í ljós, að nokkurs misræmis gætti í ákvörðun þessa fjár, og er það ekki með öllu óeðlilegt, því að reynslan hefir orðið sú frá því að l. voru sett og þar til nú á síðustu árunum, sem þau hafa gilt, að það hafa orðið geysilega miklar breyt. á úthlutun þessa skrifstofufjár, þannig lagað, að allir bæjarfógetar, að undanteknum einum, hafa fengið hækkað sitt skrifstofufé til mikilla muna, og nokkrir sýslumenn hafa líka fengið það. Þetta gerir það að verkum, að n. virðist, að nokkurt misræmi hafi komizt á um ákvörðun þessa fjár. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rifja upp þær breyt., sem orðið hafa á þessu tímabili, en allar bera þær þess merki, að á þessu 5 ára tímabili, sem l. hafa gilt, hefir starf þessara embættismanna vaxið býsna mikið. Virðist n., að fyrir því megi finna rök, þegar litið er til þeirra margháttuðu breyt., sem orðið hafa á skattalögum landsins á þessu tímabili, og þegar litið er til þeirra afleiðinga, sem óhjákvæmilega hafa orðið af þeim viðskiptahöffum, sem stj. hefir orðið að gera.

Meiri hl. n. komst að þeirri niðurstöðu að gera við frv. nokkrar breyt., sem fram eru komnar á þskj. 221. Þær miða allar að því að hækka að nokkrum mun skrifstofufé nokkurra sýslumanna. Ég hirði ekki um að fara út í neinn sérstakan samanburð í þessu efni, en vil aðeins geta þess, að hækkunin er sízt hlutfallslega meiri hjá þessum embættismönnum en sú hækkun, sem orðið hefir á því tímabili, sem f. hafa gilt, hjá öðrum hliðstæðum starfsmönnum. Hækkunin er nokkuð misjöfn, og hygg ég, að því megi finna stað, því að þó að viðurkenning sé fengin fyrir því, að réttlátt sé, að skrifstofufé hækki, er mismunandi, hve mikil hækkunin á að vera. Þessi hækkun, sem hér er um að ræða, er hjá sex af sýslumönnum landsins og nemur samtals 4200 kr.

Ég get tekið það fram, að n. hefir ekki eins rækilega athugað skrifstofufé bæjarfógeta og sýslumannanna. Það er líka erfiðara viðfangs, og má gera ráð fyrir, að fram geti komið einhverjar brtt. frá n. við 3. umr. að því er þá snertir. Ég vil ennfremur taka það fram, að eins og ég hefi bent á áður, hefir skrifstofufé bæjarfógeta allra verið hækkað á þessu 5 ára tímabili, nema hjá einum, og er þar um að ræða yngsta embættið, en þessi hækkun hefir eðlilega verið misjöfn, og ég viðurkenni, að þurfa muni frekari rannsóknar við um samanburð þar á milli.

Ég sé ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist, að fara fleiri orðum um brtt. n. Hinsvegar er rétt að víkja að því, að n. vill breyta nokkuð frv. í fleiri atriðum en hvað snertir hækkun eða lækkun skrifstofufjár. Fyrsta brtt. við 1. gr. (brtt. 221, 1. a) er á þá leið, að í stað „söfnun innflutningsskýrslna“ komi: inn- og útflutningsskýrslna. N. telur rétt að taka það fram, að það er fyrir söfnun þessara tvennra skýrslna, sem skrifstofuféð er ákveðið eins og er í frv. Liðirnir b-g fjalla allir um nokkra hækkun á skrifstofufé og hefi ég þegar gert grein fyrir því. H-liðurinn er til leiðréttingar til þess að sýna, hvernig við viljum, að frv. líti út að lokinni atkvgr., og stendur í sambandi við 2. brtt., en þar er lagt til, að síðasti liður 1. gr. verði færður yfir í sérstaka gr. Þetta byggjum við á því, að við teljum, að efni síðasta liðs sé annars eðlis en hinna liðanna. Höfum við því sett hann í nýja efnisgr. og orðað hann nokkuð á annan veg en gert er í frv.

Að síðustu leggjum við til, að í fyrirsögn frv. verði bætt orðunum „o. fl.“, af því að við teljum, að hin nýja gr., sem verður 2. gr., um skrifstofufé lögreglustjóra á 4 stöðum á landinu, sé annars eðlis en hinar gr. frv. Þess vegna er rétt, að í fyrirsögnina bætist „o. fl.“.

Þá vil ég loks taka það fram, að það kom til orða í n. að athuga möguleika til breyt. á 2. gr. frv., eins og það er nú, um hækkun eða lækkun skrifstofufjárins eftir verðgildi peninga. Ákvæði um það hefir verið í l. um nokkur undanfarin ár og er tekið inn í frv. eftir því. En ég tel, að það sé mjög til athugunar, hvort ekki væri rétt annað tveggja að fella niður gr. eða að miða möguleika til breyt. um hækkun eða lækkun við annað en miðað er við í 2. gr. frv., nefnilega við vísitölur hagstofunnar. Ég taldi rétt að láta þetta koma fram, þó að ég viti ekki enn, hvað ofan á verður í n. fyrir 3. umr.