23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég þarf ekki að vera langorður að þessu sinni. Það voru aðeins eitt eða tvö atriði í ræðu hv. frsm., sem ég hefi dálítið við að athuga. Hann hélt því fram, að ég vildi, að þetta vegafé færi sem mest á einn og sama stað; svo sagði hann, að ég með mínum brtt. vildi auka glundroðann í þessari grein (4. gr.) eins og hún liggur fyrir. Þetta er algerlega rangt hjá honum: Það er ekkert annað, sem ég geri með brtt. mínum, en að reyna að lagfæra og gera réttlátari þau fyrirmæli, sem í greininni eru, skipta jafnara á milli landshlutanna. Þegar á annað borð er farið út í það að skipta, þá á að reyna að sýna réttlæti, en fara ekki á hundavaði yfir hlutina eftir því sem þægilegast er upp á aðstöðu ýmsa pólitíska og þessháttar. Það dugir ekki, og vænti ég, að hv. Alþ. sýni sig ekki bert að slíkum hlutum.

Þá sagði hv. frsm., að ég hefði haldið því fram, að hann vildi verja fé til heiðar á Vesturlandi, og vildi afsaka, að það væri ekki hans vilji; en þá veit ég ekki, hver hans vilji er, þegar hann í nál. leggur til, að þessi stafl. skuli haldast óbreyttur. Með því er það hreint og beint hans vilji, að þessu sé þannig varið, og þýðir ekki fyrir hann að vera að bera á móti því. En ég skil, að hann kæri sig ekki um að láta eigna sér þá till., því að. hann býst við að það verði erfitt að verja hana, og met ég það frekar við hann en hitt. Að hann vill ekki láta sýna það, að hann sé við þá till. mjög riðinn, er honum full vorkunn.

Þó að þessar till. minar verði samþ., þarf ekki að fella til muna af öðru fé, og ég hygg, að þeir, sem vilja, að kauptúnin úti í landi verði ekki afskipt, vilji a. m. k. styðja þá till., sem er um Stykkishólm, um veginn þangað. Hann á frekar rétt til þess en sá kaupstaður, sem þegar er búinn að fá ágætan veg heim í sjálfan kaupstaðinn, og á ég þar við Seyðisfjörð. Sjá allir sanngirnina í þessu, þar sem bilanotkun er meiri á þessum stað heldur en hinum, Seyðisfirði.