23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og ég lýsti yfir við 2. umr. þessa máls, að gert myndi verða, hefir allshn. tekið málið til athugunar á ný, sérstaklega með tilliti til skrifstofufjár bæjarfógeta, og niðurstaðan af þeim athugunum var sú, að allshn. flutti brtt. á þskj. 268, þar sem lagt er til, að skrifstofufé bæjarfógeta verði hækkað um 2 þús. kr. Það skal tekið fram strax, að þegar málið var tekið fyrir á fundi allshn., var hv. 1. þm. Reykv. ekki viðstaddur, og á hann því ekki þátt í afgreiðslu þessarar brtt. Að öðru leyti var nefndin sammála um þetta. Ég þarf ekki að mæla mikið fyrir brtt. fyrir n. hönd, því að 2 aðrar brtt. hafa þegar komið fram um þennan sama lið og vilja báðar ganga lengra en brtt. n. Ég vil taka fram, að n. — og sérstaklega ég, því mér var það falið, — hefir athugað gaumgæfilega þau skjöl, sem fyrir lágu í þessu máli, og auk þess hefir n. eða ég sérstaklega leitað upplýsinga um þetta hjá endurskoðanda ríkissjóðs, viðvíkjandi þessu máli. Ennfremur hefi ég átt tal við Ingólf Jónsson, sem hefir haft á hendi endurskoðun hjá sýslumönnum og bæjarfógetum í landinu undanfarin ár. Eftir þá athugun vil ég segja það sem mína skoðun, að ég álít, að hv. n. sé því að mestu leyti sammála, að í till. n. sé reynt að gæta sem mestrar sanngirni í hlutfallinu á milli skrifstofufjár á hinum ýmsu stöðum. Ég held, að ef frekari breyt. á skiptingu þessa fjár verða samþ. en þær, sem n. hefir sameiginlega lagt til, þá sé hætta á, að ósamræmi komist á milli hinna einstöku upphæða til sérstakra embætta.

Ég held, að það sé óþarft fyrir mig að mæla frekar fyrir þessari brtt. Mér virðist, að hún muni ekki mæta andstöðu. Hinsvegar geri ég ráð fyrir, að ég hafi nokkuð aðrar skoðanir en hv. flm. brtt. þeirra, sem fyrir liggja, en mun láta þær afskiptalausar þar til hv. flm. hefir gefizt kostur á að mæla fyrir þeim.