23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Bernharð Stefánsson:

Þegar þetta mál var til 2. umr., sýndi hv. 11. landsk. fram á, að upphæð sú, sem ætluð er til skrifstofukostnaðar við bæjarfógetaembættið á Siglufirði, væri of lág í frv. Hv. allshn. hefir að nokkru leyti tekið þau rök til greina, sem fram komu hjá honum, því hún hefir flutt till. um að hækka þetta nokkuð. En þar sem það er aðeins lítilfjörleg hækkun, sem n. hefir lagt til, höfum við hv. 11. landsk. og ég borið fram brtt. á þskj. 270 um að hækka þennan lið nokkuð meira, og verð ég að líta svo á, að í till. okkar sé sett fram það lágmark, sem hægt er að komast af með til þessa embættis. Hv. frsm. n. fór ekki mörgum orðum um þetta og færði ekki rök fyrir því, hvað nauðsynlegt væri til þessa, en ég vildi fá að heyra, hvernig hv. n. hugsar sér, að hægt sé að komast af með 13 þús. kr. til skrifstofukostnaðar við bæjarfógetaembættið á Siglufirði, því mér skilst, að úr því að lög eru sett um þetta, þá eigi þau að vera þannig úr garði gerð, að bæjarfógetar og sýslumenn fái það greitt, sem þeir kosta til embættisins. Hv. 11. landsk., sem sjálfur hefir unnið í 10 ár þarna, hefir skýrt frá því við 2. umr., hve mikla starfskrafta þurfi á þessa skrifstofu. og samkv. þeim upplýsingum mun vera ómögulegt að komast af með minna en 16 þús. kr. Það, sem bæjarfógetinn telur þurfa af vinnukrafti á skrifstofuna, er fulltrúi, gjaldkeri, skrifstofumaður og innheimtumaður, og svo er auk þess húsnæði og annar skrifstofukostnaður. Þessi kostnaður allur er 19800 kr. Þegar litið er á þetta, samanborið við skrifstofukostnað annarsstaðar á landinu, sé ég ekki annað en að bæjarfógetinn á Siglufirði sé órétti beittur í frv. eins og það liggur fyrir, og eins eftir brtt. hv. n. Ég hefi fyrir framan mig skýrslu um embættisverk ýmiskonar í bæjarfógeta- og sýslumannaembættum, og eftir þeirri skýrslu að dæma sýnast embættisverk vera alveg eins mikil á Siglufirði og í ýmsum öðrum kaupstöðum, þó að sýslurnar, sem með þeim fylgja, séu meðtaldar. T. d. dómar í ýmiskonar málum eru fleiri á Siglufirði en í nokkrum hinna kaupstaðanna utan Reykjavíkur, nema Ísafirði. Ýmsar aðrar réttargerðir eru eins margar á Siglufirði og öðrum kaupstöðum landsins, þótt sýslurnar séu meðtaldar. Það má segja, að þesskonar embættisverk hvíli á bæjarfógetunum og sýslumönnunum sjálfum, en ekki á skrifstofunum. en ef við lítum yfir innheimtu á ríkissjóðstekjum og annað því líkt, þá sýnir skýrslan yfir það, að það er innheimt meira á Siglufirði af slíkum gjöldum en í nokkrum öðrum kaupstað landsins fyrir utan Reykjavík, og sú vinna hvílir svo að segja eingöngu á skrifstofunum. Ég hygg, að hv. n. hafi þessa skýrslu og geti athugað hana, og fer ég því ekki lengra út í þetta. Ég vona, að ef hv. n. sýnir ekki fram á, að bæjarfógetinn á Siglufirði geti komizt af með þessar 13 þús. kr., sem hún ætlar honum, þá verði till. okkar á þskj. 270 samþ. Eins og ég sagði fyrr, þá er það algerlega lágmark þess, sem við teljum þar hægt að komast af með, og annar tillögumaðurinn hefir, eins og ég sagði áðan, þann kunnugleika á þessu, þar sem hann hefir unnið þar í 10 ár, að hann má vel um það bera, hver skrifstofukostnaður raunverulega er þarna fyrir hendi.