25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2717)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég ætla ekki í þetta skipti að flytja langa tölu um þetta mál. Ég held, að flest sé komið fram af því, sem þarf að upplýsa. Þó vil ég geta þess út af aukatekjunum, sem talað hefir verið um, að bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum mun hafa önnur kjör en bæjarfógetinn á Siglufirði, þannig að hann fær vissar tekjur af innheimtu vitagjalds. Mun þetta stafa af því, að hann er eldri embættismaður.

Ég ætla ekki að fara að skattyrðast við hv. 2. þm. S.-M., en viðvíkjandi því, sem hann var að tala um, að tollþjónarnir á Siglufirði gætu unnið að eftirliti með útflutningi vara, þá vil ég segja það, að hv. þm. ætti að vera vel kunnugt um, hvernig þetta er, því að hann hefir sjálfur verið á Siglufirði. Það er svo, að tollþjónarnir eru uppteknir við önnur störf þar, sem svo mikið er um skipakomur eins og á Siglufirði. Fiskiskipin koma venjulega inn um hverja helgi, og má nærri geta, hvort tollþjónarnir hafa ekki nóg að gera við eftirlit með þessum skipum. Ég vildi láta þetta koma fram, ekki af því, að ég viti ekki, að hv. 2. þm. S.-M. veit þetta, heldur vegna þess, að ég vildi, að aðrir hv. þm. fengju að heyra það rétta í þessu máli.

Ég vænti þess svo, að brtt. mín og hv. 1. þm. Eyf. verði samþ., og tel, að ekki komi þar neitt misrétti fram gangvart öðrum, þó að það verði gert.