09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Thor Thors:

Ég ber fram brtt. á þskj. 489, um að skrifstofufé sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu verði hækkað úr 4800 kr. upp í 5000 kr. Þessi till. er borin fram samkv. ósk sýslumannsins sjálfs og sérstaklega rökstudd með því, að Snæfellsnessýsla hafi undanfarið haft sama skrifstofufé sem Húnavatns- og Skagafjarðarsýsla. En nú hefir n. gert mismun á þessum sýslum, og sé ég enga ástæðu til þess að það verði gert, því að Snæfellsnessýsla er fjölmenn sýsla, en að mörgu leyti erfiðari en hinar tvær, einkum vegna lélegri samgangna heldur en í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum. Sýslumaðurinn í Snæfellsnessýslu hefir mjög mikil útgjöld árlega af þingaferðum, sem eru erfiðari í þeirri sýslu sakir þess, hve samgöngurnar eru óþægilegar, og allar ferðir verða þar af leiðandi dýrar. Þar sem hér er aðeins um mjög lítilfjörlega hækkun að ræða, 200 kr. á ári, vænti ég þess, að hv. þd. geti fallizt á, að hér sé sanngjarnt mál á ferðinni.