11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

139. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

*Frsm. (Árni Jónsson):

Menn hafa nýlega heyrt ósk hæstv. forseta um að lengja ekki umr. meir en góðu hófi gegnir. Ég mun verða við því, og ekki síður fyrir þá sök, að málið er kunnugt d. áður. Hv. 2. landsk. þm. hefir flutt hér frv. á þskj 46 um stofnun uppeldisheimilis fyrir vangæf börn og unglinga, og er það eins og segir í grg. í 3. sinn, sem það er flutt. Allshn. hefir haft þetta frv. til meðferðar síðan í marz og rætt um það á nokkrum fundum, án þess að tekin hafi verið ákvörðun fyrr en alveg nýlega. En þótt nm. væru allir á einu máli um það, að þetta sé nauðsynjamál, varð þó ekki bent á, að unnt sé að koma þessu fram eins og sakir standa. Það er þannig ástatt um mörg fleiri nauðsynjamál, vegna þess hvernig nú árar. Nm. vildu láta það koma skýrt fram engu að síður, að þeir lýsa einhuga fylgi við málið, og hafa því ráðið að bera fram þessa þáltill. á þskj. 505, er hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: Efri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, hvar vænlegast sé að stofna uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga, og gera áætlun um stofnkostnað slíks heimilis, og sé rannsókn lokið fyrir næsta Alþingi.

Ég hygg, að eftir atvikum muni þessi lausn málsins fullnægja hv. flm. frv. (GL) eða hún sætti sig við hana að sinni, þótt hún hefði vitanlega heldur kosið, að málið gengi nú þegar fram.

Ég vænti þess, að hv. þdm. taki vel undir þessa þáltill.