29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Út af nokkrum ummælum hv. þm. G.- K. um, að útgerðin ætti ekki að leggjast upp á ríkið, verð ég að segja það, að hann er býsna ósamkvæmur sjálfum sér. Hann telur, að helzta bjargráðið sé að létta sköttum af útgerðinni, og skapa henni þannig sérréttindi í ríkinu. En þá held ég, að hún sé að leggjast upp á ríkið, því að ef hún getur ekki staðið undir sínum hluta af þjóðfélagskostnaðinum, verða aðrir að bera hann fyrir hana, og bera hana þannig uppi. Ég held, að hv. þm. G.-K. ætti að vara sig á þessu skrafi um að leggjast upp á ríkið, ef hann er sér þess meðvitandi, að annar mesti framleiðsluatvinnuvegur landsmanna geti ekki staðið undir gjöldum tilsvarandi við aðra atvinnuvegi. En ég er sammála þessum hv. þm. um það, að Alþ. verður að gera sér grein fyrir, hvað það er, sem þarf að gera í þessum efnum. Það er einmitt það, sem Alþ. er að reyna með því að samþ. þá þáltill., sem nú liggur fyrir þinginu um að rannsaka hag togaraútgerðarinnar. Það er sú leið, sem ein er fær fyrir Alþ., og hv. þm. G.-K. ætti að hafa svolítið meiri skilning en hann hefir á þeirri ráðstöfun.

Hann heldur, að það sé ekki rétt, að ríkissjóður veiti styrk til kaupa á togurum; það gangi ekki til lengdar að halda þessum atvinnuvegi þannig uppi. Það er rétt, að á hitt ber að lita, að þegar svo er ástatt, sem nú hefir verið um mörg undanfarin ár, að enginn maður hefir reynt til að kaupa skip, þá þarf hið opinbera að skerast í leikinn, til þess að sjá hvort ekki megi með nýtízku skipum fá þennan atvinnuveg til að bera sig. Ef það er hægt, kemur fjármagnið af sjálfu sér og rennur til atvinnuvegarins aftur, þegar menn eru búnir að sjá leiðina. Þessi styrkur réttlætist af því, að hann er veittur til tilrauna, sem enginn útgerðarmaður er fær um að ráðast í af eigin rammleik.