29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Ólafur Thors:

Það er ástæðulaust að vera með langar bollaleggingar um þetta mál. Ég vil svara hv. þm. Rang. stuttlega. Það var engin mótsögn hjá mér, þó að ég teldi það enga framtíð fyrir útgerðina, ef hún ætti að leggjast sem ómagi upp á ríkissjóð, og að endurnýjun togaraflotans gæti ekki byggzt á styrk úr ríkissjóði, en hinsvegar taldi ég nauðsynlegt að létta sköttum og kostnaði af þessum atvinnuvegi. Sá veit bezt, hvar skórinn kreppir, sem ber hann á fætinum. Það er mikill munur á því, hvort hver einstakur hlutur, sem þarf til útgerðarinnar, er skattlagður eða ekki.

Skattaléttir er ekki sama sem að leggjast upp á ríkissjóð. En þegar 200 þús. kr. fást með lögum lagðar fram af ríkinu í hvert einstakt skip, sem keypt er, og auk þess lán, þá er það að leggjast upp á ríkið. Ég álít, að ríkið eigi ekki að veita svo mikið fé til þeirra hluta, heldur eigi að hjálpa bæði smábátaeigendum og stórútgerðarmönnum, þannig að þessi atvinnuvegur geti verið sjálfbjarga.

Það er rétt, að Alþ. verður að gera sér ljósa grein fyrir rekstrarafkomu togaraútgerðarinnar. En var þá ekki nauðsyn að gera það, áður en samþ. var að veita 200 þús. kr. ríkisstyrk, og auk þess lán handa hverjum nýjum togara? Ég vildi, að hv. frsm. þessa máls gerði grein fyrir því, hvernig hann vill skýra þetta ósamræmi. Ég hygg, að það sé ekki fullkominn skrípaleikur. Hinsvegar er sagt, að hér sé um tilraun að ræða á því, hvernig nýtízku togari muni bera sig. En þá er því til að svara, að hér er til eitt skip, sem hefir allan nýtízku útbúnað og ber sig ekki. Munurinn á arðinum ézt upp að talsverðu leyti við það, að meiri kol þarf til rekstrar þessa skips en annara. En ef reynslan hér á landi er takmörkuð í þessum efnum, þá getum við byggt á reynslu annara þjóða, og ég held, að ekki sé að neinu verulegu leyti útlit fyrir það, að íslenzkum útgerðarmönnum sé hulið, ef þar er um nokkur ný frábrigði að ræða. Séu þau nýmæli arðvænleg, ætti það fljótt að verða til þess, að flest skip, sem útveg stunda, fengju hin nauðsynlegu tæki. Reynsla erlendra þjóða getur ekki hvatt neinn til þess að leggja fé í nýja togara hér við land. Er annars hægt að fá nokkurn skýrari vott um útlitið en þann, að á síðustu 10–15 árum hefir enginn árætt að koma inn á þetta svið, enda þótt menn hafi lagt fram margar milljónir í aðrar framleiðslugreinar, t. d. iðnað. Mér er kunnugt, að það er ekki af fúsum vilja, sem Framsókn hefir samið um þetta mál. Það gekk eingöngu fram vegna þess, að á því stóðu samningar við bandamenn þeirra í Alþfl.