12.04.1938
Neðri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í D-deild Alþingistíðinda. (2973)

90. mál, laun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana o. fl.

Flm. (Stefán Stefánsson):

Till. á þskj. 161, sem við hv. þm. Dal. flytjum, er í 5 liðum. Í grg. þeirri, sem till. fylgir, er skýrt tekið fram, hvað í henni felst. 1. liðurinn er um það, að færð verði til jöfnunar og samræmis laun starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Það mun öllum kunnara en frá þurfi að segja, hvílíkt misrétti ríkir um allar launagreiðslur hjá okkur, og að nauðsyn beri til að lagfæra þær sem fyrst. Ég býst ekki við, að það þyrfti að verða svo dýrt að leiðrétta þetta mikla ósamræmi í launagreiðslunum, að það út af fyrir sig þurfi að gera framkvæmdina ómögulega. Má því til sönnunar benda t. d. á, að fyrir liggur álit launamálanefndar frá 1933, sem mikið mætti byggja á. Þá er það og ætlan mín, að t. d. skrifstofustjórarnir í stjórnarráðinu geti unnið að þessu fyrir lítið.

Þá þarf og að rannsaka starfsmannahaldið, því að grunur leikur á um, að í sumar stofnanir séu menn teknir beinlínis í gustukaskyni, sem kallað er. Slíkt geta einstaklingar vitanlega leyft sér, en það opinbera ekki.

Eins og vitanlegt er, þá byggist allt á framleiðslunni, afkomu hennar. Væri því ekki úr vegi að athuga þá hugmynd, að hafa launin hreyfanleg, til þess að þau fari nokkuð eftir afkomu atvinnuveganna. Launalög þau, sem nú gilda, eru frá 1919 og eru því orðin úrelt og alveg ónothæf til þess að byggja laun starfsmanna ríkisins á þeim eingöngu. Þörfin á því að taka mál þessi í heild til endurskoðunar er því orðin mjög aðkallandi.

2. liður till. okkar fjallar um það, að á meðan ekki hefir farið fram jöfnun á launum þeirra starfsmanna ríkísins og ríkisstofnana, sem ekki taka laun sín samkv. launalögum, þá verði laun þeirra lækkuð um 15%. Þetta er í samræmi við það, sem Alþingi 1935 gerði, er það tók dýrtíðaruppbót af þeim launum, sem voru hærri en 4500 kr., og því er hér lagt til, að 15% lækkunin nái aðeins til þess hluta launanna, sem er yfir 4500 kr. Það, sem hér er farið fram á, verður að teljast fyllsta sanngirniskrafa, þar sem þeir, sem við framleiðslu fást, fá oft á tíðum mjög lág laun, og því er ekki nema sanngjarnt, að þeir, sem vinna hjá því opinbera, verði einnig að slaka til á launum sínum, þegar illa gengur með alla framleiðslu.

3. liður till. fer fram á það, að réttur þeirra, sem vinna hjá því opinbera, til þess að hafa með höndum ýms aukastörf og taka laun fyrir, verði takmarkaður. Það er nfl. kunnara en frá þurfi að segja, að sumir embættis- og starfsmenn þjóðarinnar hafa ýms hálaunuð aukastörf með höndum, sem þeir fá jafnvel meira fyrir en aðalstarfið. Þetta er í fyrsta lagi óheppilegt sökum þess, að þegar miklum störfum er hlaðið á menn, getur svo farið, að þeir beinlínis vanræki aðalstarfið, auk þess sem það er óeðlilegt að láta suma menn fá tvöföld laun eða meira, en aðra lifa við sult og seyru. Þessu þarf að koma í það horf, að menn geti lifað sómasamlega af þeim launum, sem þeir fá fyrir aðalstarf sitt, og þurfi því ekki að vera á snöpum eftir aukastörfum bæði hjá einstaklingum og því opinbera.

4. liður till. fer fram á það, að á starfsmannaskrá ríkisins og ríkisstofnana séu þeir starfsmenn, sem hafa aukastörf með höndum, sem þeir fá fé fyrir, sérstaklega nafngreindir og getið launa þeirra fyrir hvert einstakt starf, en sleppt sé þó öllum aukastörfum, ef greiðslan fyrir þau öll samanlögð er undir 1000 kr.

Það hefir verið venja undanfarin ár að láta starfsmannaskrá fylgja fjárlfrv., og er ekki nema gott eitt um það að segja. Við þessa skrá þarf að bæta nöfnum þeirra, sem aukastörf hafa með höndum, og upphæðunum, sem þeir fá greiddar. Þetta gæti jafnvel orðið til þess, að menn sæktust ekki eins mjög eftir þessum svonefndu bitlingum eins og þeir gera nú.

Þá kem ég að 5. lið till., en þar er gert ráð fyrir því, að fjárlfrv. skuli fylgja yfirlit um þá starfsmenn ríkis og ríkisstofnana, sem ferðast utanlands eða innan fyrir ríkisfé, ásamt yfirliti yfir dagpeninga og ferðakostnað þessara manna. Það er ekki lengra síðan en á þessu ári, að þær upplýsingar voru gefnar, að útvarpið og einn starfsmaður þess hefði reiknað sér, þegar hann fór frá starfi sínu í ferðalög, fyrir utan ferðakostnað, 50 kr. í dagpeninga utan lands og 15 kr. innan lands. Slíka dagpeninga er hægt að afnema. Menn, sem hafa sæmileg laun, 6000–8000 kr. árslaun, ættu ekki að vera að sníkja slíkt fé út úr fátækum ríkissjóði og gefa með því slæmt fordæmi. Þó að hér sé aðeins um einn starfsmann einnar opinberrar ríkisstofnunar að ræða, ímynda ég mér, að fleiri geti verið undir sömu sökina seldir en þessi maður, og það er með öllu óþolandi, að mönnum haldist það uppi að taka mikla peninga í sinn eigin vasa til viðbótar þeim launum, sem þeir hafa nú samkv. landslögum. Slíkir menn geta beinlínis notfært sér þetta til uppsláttar, t. d. þegar þeir fara til útlanda. Þá gætu þeir kannske afgreitt það erindi, sem þeir þurfa að annast fyrir viðkomandi stofnun, á mánaðartíma, en svo gætu þeir farið sinna eigin ferða með 50 kr. í dagpeninga ef til vill eina 3 mánuði. Slíkt á ekki og má alls ekki koma fyrir, og ég vil vænta þess, að slík skrá yfir ferðakostnað og dagpeninga þessara manna ætti að verða til þess að taka fyrir þetta með öllu.

Ég mun nú ekki að sinni segja fleira um þetta, en ég vil endurtaka það, sem ég gat um í byrjun ræðu minnar, að ég tel grundvöll undir ný launal., sem þarf að setja, vera fyrir hendi, þar sem er álit og till. launamálanefndar, og það ætti að vera tiltölulega fyrirhafnarlaust og kostnaðarlaust að semja ný launal. með tilliti til hinna breyttu aðstæðna, og ég tel, að ýmsir starfsmenn ríkisins, eins og t. d. fulltrúar í stjórnarráðinu, gætu vel gengið frá till. til nýrra launal., og vegna þess sé ég ekki ástæðu til, að málinu sé vísað til nefndar.