12.04.1938
Neðri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (2974)

90. mál, laun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 4. landsk. færði það fram sem röksemd fyrir þessari till., að ósamræmið í launagreiðslum ríkisstofnananna og ríkisins væri svo mikið, að slíkt væri ekki hægt að þola lengur. Ræða hans hneig öll nokkuð í þá átt, og það var ekki hægt að heyra á hans ræðu, að hann hefði orðið var við nokkra starfsemi til undirbúnings því, að ný launal. yrðu sett eða aukið samræmi í þessu efni án launal.

Það má að vísu kannske segja, að til sé eitthvert ósamræmi í launagreiðslum ríkis og ríkisstofnana, enda býst ég við, að það verði lengst af álitið svo, hvort sem það er eða ekki, því að það, hversu mikinn launamismun á að gera á milli einstakra manna, fer eftir því, hvaða störf þeir vinna, svo að það verður sjálfsagt aldrei hægt að finna grundvöll, sem ekki er kallaður óréttlátur. Nú hefir það tíðkazt, að ég hygg síðan 1935, að fjárlfrv. hefir fylgt starfsmannaskrá ríkisins, og síðan byrjað var á því hefir fjvn. haft miklu meiri afskipti af þessum málum heldur en áður, og það hefir vakað fyrir mér. að eftir að fjvn. er búin að vinna, eins og hún hefir gert undanfarin ár, um nokkurt skeið, þá sé þess að vænta, að starfsmannaskrá ríkisins verði komin í það horf, að hana megi nota sem aðalgrundvöll fyrir ný launal., og ég er ekki í neinum vafa um, að sú stund nálgast, að með starfi sínu hafi fjvn. létt geysimikið setningu nýrra launal. að þessu leyti. Fjvn. hefir haft mjög til hliðsjónar þær till., sem milliþn. í launamálum gerði um launakjör einstakra manna. Það vakir fyrir mér, að starfsmannaskráin verði innan stundar grundvöllur fyrir nýjum launal., og þannig verði til frambúðar not af þeirri miklu vinnu, sem fjvn. hefir lagt í þetta mál undanfarin ár, og hvað sem hv. 1. flm. þessarar till. segir um þetta, sem hann er reyndar tiltölulega ókunnugur, þá er það staðreynd, að það hefir þokazt mjög í áttina til betra samræmis í þessu efni en verið hefir, einmitt fyrir milligöngu fjvn. og þeirra, sem með henni hafa unnið. Ég skal upplýsa það, að til viðbótar starfi fjvn. hefir verið sett n., skipuð 5 embættismönnum, til þess að gera till. um að færa starfsmenn ríkisins í launaflokka, og var ætlunin, að till. þeirrar n. ásamt starfsmannaskránni yrði sá endanlegi grundvöllur undir ný launalög.

Hv. þm. talaði um starfsmannafjölda hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum. Það er ekki óvanalegt að heyra talað um það hér á þingi, en sannleikurinn er sá, að flestir, sem tala um það hér á þingi, hafa sem eðlilegt er ekki aðstöðu til þess að dæma um þetta, og þessi hv. þm. ekki heldur. Þeir þm., sem komast næst því að dæma um þetta, eru þeir, sem sitja í fjvn. og hafa árum saman reynt að kynna sér þetta sérstaklega, og þó er það takmarkað, sem þeir vita um þetta í raun og veru, því að það er aldrei hægt að komast hjá því að treysta forráðamönnum hverrar stofnunar mjög mikið um það, hve marga starfsmenn þeir þurfa til þess að inna þau störf af höndum, sem stofnanirnar eiga að skila.

Hv. þm. sagði, að það léki mikill grunur á því. að menn væru teknir í gustukaskyni í störf við ríkisstofnanir. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. Mér þykir ótrúlegt, að hann segði þetta, ef hann hefði ekki eitthvað sérstakt fyrir sér með þessu. Ég vil vænta þess, að hann nefni dæmi hér um það, að menn hafi verið teknir í gustukaskyni í starf og stofnun þannig íþyngt að óþörfu. Eins og þeir hv. þm. vita, sem sæli eiga í fjvn., hefir verið lögð í það mikil vinna, bæði af n. og öðrum, að skapa heilbrigt aðhald um það, að menn hefðu ekki of marga starfsmenn og greiddu ekki of há laun, og þeirri viðleitni verður haldið áfram, hver sem verða örlög þeirrar till., sem hér liggur fyrir.

Einn liður þessarar till. er um það, að lækka skuli laun þeirra manna, sem fá laun greidd utan launal., um 15%, og röksemdin, sem hv. þm. færir fyrir þessari ráðstöfun, er eiginlega margra ára gömul, sem sé sú, að laun þeirra manna, sem taka laun samkv. launal., hefðu verið lækkuð, en ekki hinna. Ég skal upplýsa, að þegar dýrtíðaruppbótin var lækkuð að ofan til, þá voru laun langflestra, sem taka laun utan launal., einnig lækkuð nokkurn veginn að sama skapi, og ef hv. þm. vill reyna að athuga starfsmannaskrá ríkisins eins og hún liggur fyrir, þar sem talin eru laun samkv. launal., með þeim uppbótum, sem þeir hafa fengið, sem fá greidd laun samkv. þeim, og hinsvegar þau laun, sem greidd eru utan launal., þá sér hann, að hann hefir tekið of djúpt í árinni um þann mismun, sem er þarna á milli, því að sannleikurinn er sá, að með starfi sínu hefir fjvn. unnið að því að samræma laun þeirra, sem taka laun eftir launal., og þeirra, sem taka laun ekki samkv. þeim. Ef fara ætti eftir till. hv. 4. landsk., þá yrði framið svo hróplegt ranglæti gagnvart þeim, sem taka laun utan launal., að óhugsandi væri, að þeir gætu þolað slíkt. Ég veit, að þetta er sett fram af ókunnugleika hjá hv. þm., en hann mun sannfærast um þetta, ef hann rannsakar launagreiðslurnar í heild sinni eins og þær eru framkvæmdar. Þetta liggur í því, að margir af þeim mönnum, sem fá greidd laun samkv. gömlu launal., hafa fengið uppbót, sem ákveðin er í starfsmannaskrá ríkisins og er réttmæt þeim til handa, vegna þess hve launal. eru gömul. Það má þess vegna ekki einblína á tölur launal., sem eru orðin úrelt, eins og hv. flm. tók réttilega fram, heldur verður að bera saman þær greiðslur, sem í raun og veru eru inntar af höndum. Auk þess vil ég upplýsa það, sem er staðreynd, sem ekki er hægt að komast framhjá, en ég mun víkja nánar að í fjárlagaumr. að gefnu tilefni, að launagreiðslur ríkisins og ríkisstofnananna til sinna starfsmanna eru nú yfirleitt lægri heldur en launagreiðslur annara stofnana, sem sambærilegar eru hér í bænum. Það væri náttúrlega gott, ef menn vildu leggja það á sig fyrir föðurlandið að vinna hjá ríkisstofnunum fyrir miklu lægri laun en þeir gætu fengið hjá einkastofnunum, en það er varla hægt að ætlast til þess, að sérstakur hópur manna taki sig út úr og geri slíkt, ef þeir eiga kost á hærri launum annarsstaðar. (GSv: Það eru fæstir). Það eru mjög margir, og það eru mýmörg dæmi þess, að einkafyrirtæki hér í bænum hafa fengið duglega starfsmenn frá ríkisstofnununum, af því að þau buðu hærri laun, og það eru mýmörg dæmi þess, að við höfum orðið að hækka laun við starfsmenn ríkisins til þess að missa þá ekki. (GSv: Maður þekkir þetta). Ég þekki þetta, enda mun það liggja fyrir hjá fjvn., að við samanburð á launagreiðslum stofnana hefir það komið upp úr dúrnum, sem ég var að segja, en annars mun ég upplýsa þetta nánar í fjárlagaumr. Eins og ég hefi minnzt á, hefir fjvn. unnið mikið starf í sambandi við starfsmannaskrá ríkisins, og þar er sá grundvöllur, sem helzt er hægt að byggja á rökstuddar aðgerðir í þessu efni, en það kemur ekki til mála, að Alþ. afgr. till. eins og þessa, nema í samráði við fjvn., sem hefir haft þessi mál með höndum bæði í samráði við ríkisstj. og þingið undanfarin ár.