03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Eiríkur Einarsson:

Það var aðeins út af því, sem þeir tóku fram hv. 7. landsk. og hv. 1. þm. Rang. til andsvara minni ræðu áðan. En það raskar ekki því, sem ég sagði og allt var í samræmi við veruleikann.

Hv. 7. landsk. sagði, að enda þótt leiðin um Krísuvík sé nokkru lengri, þá sé hún snjóléttari. Krísuvíkurleiðin er, sem kunnugt er, 32 km. lengri en leiðin um Þrengslin. Og ef dagleiðin er orðin löng, þá er þó dálítill spölur 32 kílómetrar, a. m. k. hefir það þótt á landi voru, því að við erum ennþá bundnir við jörðina.

Það er náttúrlega hægt að sanna, að Krísuvíkur leiðin sé lægra frá sjó. En um öryggið á leiðinni yfir Reykjanesið hygg ég, að sé bezt að hafa sem fæst orð til að sanna það, því að það er ekki reynt. Það er alls ekki tómt handahóf, að menn í ábyrgðarmiklum stöðum, sem eru trúnaðarmenn ríkisins og eiga allra manna að hafa bezta aðstöðu til þess að bera skyn á þessa hluti, hvar bezt sé að leggja vegi, hafa lagt til þessara mála allt annað en nú á að framkvæma af hinu háa Alþ. Það voru engir nýir landkönnuðir, sem, eftir að vegamálastjóri lagði fram sitt álit um þetta mál, komust að raun um, að Krísuvík væri til og að Hafnarfjörður væri til. eins og vegamálastjóri hefði ekki vitað af þessu. Það var heldur engin tilviljun, að 60–70 bændur, sem kunnugleika höfðu á þessari leið, báru vitni um, að Þrengslaleiðin væri tiltölulega snjólétt, og hvöttu til þess, að þar væri vegurinn hafður, af því að sú leið væri svo örugg og snjólétt. Svo koma þessir góðu herrar og segja, að ég vilji tefja málið og vera þrándur í götu fyrir framgangi þess, vegna þess að ég leyfði mér að hafa sömu skoðun og vegamálastjóri landsins og margir fleiri um þetta mál, með því að halda fram, að betra hefði verið að leggja veginn um miklu skemmri leið með ekki minna öryggi. Hvernig leyfa þeir sér að segja þetta? Ekki vil ég segja, þó að hv. 1. þm. Rang. sé mér ekki sammála í þessu máli, að hann sé þrándur í götu þess eða með þvergirðingshátt um það. Ég held því fram, að þessi leið, sem ég talaði um, sé réttari til þess að leggja veg eftir henni en segi ekki, né held því fram á neinn hátt, að hv. 1. þm. Rang. hafi látið stjórnast af neinum óhreinum hvötum með því að halda öðru fram en ég um þetta.

Það gleður hv- 7. landsk., að þessi vegur sé að verða að veruleika um Krísuvíkurleiðina. Já, vegurinn er náttúrlega kominn á stað, en mikið vantar nú samt á, að hann sé búinn. Hitt get ég viðurkennt, að það er vert að hrósa hv. 7. landsk. fyrir það, hve hann er duglegur fyrir umbjóðendur sína í Hafnarfirði með að útvega þeim vinnu við þessa vegalagningu, sem þeir þurfa svo mjög að fá. Það sýnir hans dug og lag, að hann hefir fengið þingmeirihlutann á þetta mál með sér, ekki hyggilegra en það nú er.

Um það, að ég vilji gerast spámaður um það, hvað framtíðin muni segja um þetta mál, vil ég segja það, að það er vitanlegt, ef maður hefir ákveðna skoðun um mál, þá leiðir það af sjálfu sér, að maður hefir einnig þá skoðun, að framtíðin verði á sama máli um það og maður sjálfur. En ég verð að segja, að mér þykir það hart, að sagt er, að ég vilji leggja hindranir í veg fyrir það, að vegurinn verði gerður. Ég geri ráð fyrir, að við hv. l. þm. Rang. höfum unnið svona álíka mikið í vegagerð hér á sumrin, nefnilega hvergi með eigin höndum lagt stein í veg. Ég hefi komið litlu til leiðar í þessu máli. En af því að mér er sárt um það, þá finnst mér hart, að farið sé á stað á allt annan hátt en mér virðist haganlegt og hentugt fyrir framtíðina. Því vil ég biðja hv. alþm. að gefa alveg sérstakan gaum, þegar þeir íhuga þetta stórmál — því að vitanlega er þetta Suðurlandsbrautarmál stórt og afdrifaríkt mál, hvernig á að leggja veg á leiðinni milli höfuðstaðarins og Suðurlandsundirlendisins — að það er nóg til að vekja tortryggni gegn því, að hér sé rétt af stað farið, að miðað er við tvær langleiðir suður yfir, vetrarleið og svo leið til að fara eftir á öðrum árstíðum. Við höfum margra ára reynslu um það, að illa gengur að sameina héruðin austanfjalis Rvík með nema einum vegi. Það á ekki að vera um nema eina aðalieið að ræða, sem örugg sé til milliferða allt árið, og engar handahófstill. eiga um þetta að gilda, þó að þær einu sinni hafi komizt inn í niðurstöður hæstv. Alþingis.