03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Jakob Möller:

Þjóðnýtingu er hægt að framkvæma með nokkuð mismunandi hætti, og hún getur vitanlega verið framkvæmd af bæjar- og sveitarfélögum engu síður en af ríki. Og ef Framsfl. er með því að hafa þjóðnýtingu í sambandi við rekstur bæjarfélaga á atvinnufyrirtækjum, þá skilst mér, að hann geti ekki takmarkað sig við það og verið mótfallinn því, að ríkið reki einnig fyrirtæki eins og t. d. útgerð. Þetta er í raun og veru nákvæmlega það sama. Enda mundi það nú reynast svo í framkvæmdinni, að ef bæjar- og sveitarfélög þjóðnýttu alla útgerðina, þá gæti fljótlega farið svo, að framkvæmd hennar kæmist í hendur ríkisvaldsins. Og náttúrlega á nákvæmlega sama við um þetta hvorttveggja.

Hv. 1. þm. Rang. sagði fyrir sitt leyti — en hann vildi ekki slá neinu föstu um það, að það væri afstaða Framsfl., þó að ég hugsi nú samt, að honum hefði verið óhætt að gera það, — hann sagði, hvers vegna hann vildi ekki, að þessi útgerð, sem hér er um að ræða, yrði rekin af bæjarfélögum, heldur af sjómönnum sjálfum, sem stofnuðu um það samvinnufélagsskap. Hann sagði, að ef sjómenn rækju útgerðina með samvinnufélagsskap, þá rækju þeir útgerðina á sína eigin ábyrgð, en annars — ef útgerðin væri rekin af bæjarfélagi — á ábyrgð annara líka. Mér skildist hv. 1. þm. Rang. gera sér fullkomlega grein fyrir því, að þetta á jafnt við um þjóðnýtingu í höndum bæjar- og sveitarfélaga eins og um þjóðnýtingu í höndum ríkisins. Þetta, sem þessi hv. þm. tók fram sem sína afstöðu til málsins bjóst ég líka við, að væri afstaða Framsfl. Og ég get verið ánægður með það, að ég þykist hafa fengið svar við þeirri spurningu, sem ég bar fram um það, hvort Framsfl. hefði breytt afstöðu sinni gagnvart þjóðnýtingu útgerðarinnar og hvort upp af l. um fiskveiðasjóð eigi nú að spretta útgerð ríkis- og bæjarfélaga. Þessu þykist ég nú af Framsfl. hafa fengið svarað neitandi.

Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að bæjarstj. Reykjavíkur væri á ýmsum sviðum ekki mótfallin þjóðnýtingu. En við vorum nú að tala um þjóðnýtingu útgerðarinnar. Það má segja um hæstv. ríkisstj., að hún gengur lengra í þjóðnýtingu á ýmsum sviðum en bæjarstj. Rvíkur. Ríkisstj. hefir þjóðnýtt verzlun á ýmsum vörum og rekið ýms fyrirtæki á ríkisins ábyrgð, eins og t. d. póst og síma o. fl. Alveg er eins um bæjar- og sveitarfélög. En það er töluverður munur á því að reka slík fyrirtæki með þjóðnýtingu og hinu, að þjóðnýta útgerðina, og á þessu tvennu virðist mér, að Framsfl. hafi alltaf gert mjög ákveðinn greinarmun. En um það veit ég ekki. hvort það liggur fyrir frá bæjarstj. Reykjavíkur, hvort hún er mótfallin þjóðnýtingu á útgerð. En hitt veit ég, að meiri hl. bæjarstj. er mótfallinn slíkri þjóðnýtingu.

En í þessum umr. hefir komið fleira fram. Það er gott, að það hefir komið fram, að mér skilst, að af hálfu Framsfl. sé lítið svo á, að þessi togarafyrirtæki, sem hér er um að ræða, eigi að reka sem samvinnufyrirtæki. Það hefir hv. I. þm. Rang. tekið fram og lagt áherzlu á. En það verður náttúrlega ekki gert, ef bæjarfélög eiga að taka útgerðina að sér, eins og hv. 7. landsk. hefir farið fram á. Mér er það nokkuð efamál, að Alþfl. hafi gert sér grein fyrir því, að það sé gert að skilyrði fyrir styrknum til þessara fyrirtækja, að þau séu rekin sem samvinnufyrirtæki.