10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í D-deild Alþingistíðinda. (3046)

56. mál, riðuveiki í sauðfé

Sigurður E. Hlíðar:

Ég vildi aðeins leiðrétta þau gífuryrði, sem komu fram í ræðu síðasta ræðumanns, um það. að ég notaði hvert einasta tækifæri til að svívirða prófessor Níels Dungal. Ég mótmæli þessu. Yfirleitt hefi ég ekki talað hér á þessu þingi um dýralækningar nema einu sinni áður. „Krítíkin“ var ekki á rannsóknarstofu háskólans, heldur stj. og jafnvel sjálft hv. Alþingi. fyrir afskipti af mæðiveikinni. Ég nefndi aldrei nafn. En þegar talað er um jafnyfirgripsmikið og alvarlegt mál eins og þetta, þá er ég neyddur til að taka stofnunina, sem trúað er fyrir að rannsaka þetta, og það er stofnunin sjálf. sem ég vantreysti í þessu falli, og þá fellur gagnrýnin um leið í garð þeirra manna, sem stofnuninni veita forstöðu. En að ég hafi ekki látið ónotað hvert einasta tækifæri til þess að svívirða þennan mann, mótmæli ég algerlega. Ég hefi næg tækifæri til þess að taka þennan prófessor öðrum tökum, en ég hefi lítið gert að því. Ég er meinlaus maður, þó ýmsu hafi að mér verið stefnt í blöðum og annarsstaðar. En þegar er verið að tala um alidýrasjúkdóma, leyfi ég mér að tala nokkuð djarft úr flokki, þar sem ég hefi það til brunns að bera, sem flesta hv. þm. vantar, sérþekkingu á því sviði. En það gefur að skilja, þegar um vísindalega rannsókn á sérstökum sjúkdómum er að ræða hjá alidýrum, þá er það, sem heimta verður af menningarþjóð, að það séu fagmenn, sem taka það að sér, en ekki einhverjir aðrir. Nokkuð svipað væri það, ef ég ætlaði að fara að vaða inn á svið mannalækna og gefa mig út fyrir fúskara á því sviði, og að fela mönnum dýralækningar, sem ekki hafa stundað það nám um lengri tíma. Nei. vísindaleg rannsókn í þessu efni er torvelt viðfangefni. — a. m. k. líta aðrar þjóðir svo á málið. Það þarf margra, ára sérnám til þess, að þeim sé falin slík rannsókn. Enda kom það greinilega fram hjá dýralæknum landsins á síðasta fundi þeirra. Kom þeim saman um, að rétta leiðin væri sú, að fenginn væri hingað maður með dýralæknismenntun og auk þess framhaldsmenntun dýralækna til þess að geta tekið að sér slíka rannsókn, og á því leiti stöndum við enn. Ég geri ráð fyrir, að enginn þori að mótmæla þeirri nauðsynlegu undirstöðu, sem þarf til að fá greitt eitthvað úr þessu máli. Ég er sammála hv. 1. þm. N.-M. í raun og veru, þó að ég búist ekki við eins og sakir standa, að menn geti vænzt stórkostlegs árangurs af þessum rannsóknum nú. Nokkrar kindur hafa verið rannsakaðar hér heima, þó af vanmætti sé gert, og sennilega er það sami sjúkdómur og er í Englandi og Skotlandi, og hafa þar verið framkvæmdar rannsóknir af sérfróðum mönnum um áratugi, en árangurinn er ekki sá, sem maður gæti búizt við, því hér er við örðugan vágest að etja. Ég hygg réttast, ef á að fá þetta mál fram, að fela það einhverri n. En í þessu falli er ekki að ræða um hér í Sþ. nema eina n., fjvn., og geri ég ráð fyrir, að hún sé þess megnug að færa það þá í einhvern þann búning, sem er aðgengilegur.

Ég er á sama máli og hv. 1. þm. N.-M., að það eru ýms önnur verkefni en riðuveikin, sem fyrr þarf að rannsaka, og það væri kannske réttara að fella þetta allt í eina sameiginlega till., og þá myndi ég helzt óska eftir, að fenginn væri verulega sérfróður maður þar að lútandi. Mætti því búast við góðum árangri með aðstoð, skulum við segja þeirrar rannsóknarstofu, sem við höfum. Einnig sé við stofnunina fenginn maður, sem mætti treysta, og með þeim tækjum, sem þyrfti. En eins og rannsóknarstofan er nú, treysti ég henni ekki.